Hér að neðan fer bein textalýsing frá úrslitaviðureign Íslands og Danmerkur á Norðurlandamótinu í U16 ára flokki drengja. Bæði lið hafa unnið alla mótsleiki sína til þessa svo um hreinan úrslitaleik er að ræða.
Viðtal við Halldór Hermannsson eftir leik
- Íslensku piltarnir þurfa ekki að hengja haus eftir þennan leik, Danir með gríðarlega öflugt lið og frammistaða íslenska liðsins á mótinu var góð.
– 4. leikhluti
– Leik lokið og Danir eru Norðurlandameistarar 2013 eftir 69-88 sigur á íslenska liðinu. Stór og verðskuldaður sigur Dana sem eru með gríðarlega öflugt lið.
– 47 sekúndur eftir af leiknum, Atli Sigurbjartsson á línunni og setur eitt stig, staðan 66-88.
– 61-85 Sæþór Kristjánsson með sóknarfrákast og skorar..2.20mín eftir af leiknum.
– 57-83 og 4.07mín til leiksloka, Halldór Hermannsson setur tvö víti.
– 6.18mín til leiksloka og Kristinn Pálsson fær sína fimmtu villu í íslenska liðinu og hefur lokið leik að þessu sinni. Inn í hans stað kom Adam Ólafsson.
– 51-81 og munurinn orðinn 30 stig, Danir eiga hér rétt rúmar sex mínútur eftir af skylduverkefni og þeir hafa unnið vel fyrir þessum sigri. Grimmir á báðum endum vallarins og okkar piltar því miður ekki náð sér í gírinn fyrir þennan stórslag. Það var vitað fyrir leik dagsins að þetta er eitt af sterkari U16 ára liðum sem Danir hafa átt í langan tíma.
– 51-77 og þeir Breki Gylfason og Kristinn Pálsson báðir komnir með fjórar villur í íslenska liðinu…Dembele að troða með látum enn eina ferðina og 51-79, magnaður leikmaður hér á ferðinni sem er kominn með 19 stig og 12 fráköst.
– 73-51 og fersk byrjun hjá Íslendingum í fjórða leikhluta.

– 3. leikhluti
– Þriðja leikhluta er lokið og staðan er 46-73. Íslensku piltarnir voru líflegir framan af þriðja leikhluta en Danir mun betri síðustu mínútur leikhlutans og þeir dönsku unnu þriðja hluta 13-24.
– 44-67 og 3.20mín eftir af þriðja leikhluta, gengur lítið hjá okkar mönnum þessa stundina, Hilmir Kristjánsson reyndar að taka ruðning á Danina en munurinn er orðinn 23 stig og enn ekki farið að glitta í það besta hjá íslenska liðinu.
– 44-65 og 7-2 kafli hjá Dönum, 4.49mín eftir af þriðja leikhluta.
– 42-58 Kári Jónsson með þrist og 7.00mín eftir af þriðja leikhluta. Þristunum rignir þessar fyrstu þrjár mínútur og hlutirnir gerast hratt.
– 39-57 Halldór Hermannsson að verja skot frá Dönum í spjaldið! Glæsileg tilþrif og Halldór er vel gíraður og aðrir í íslenska liðinu þyrftu að lemja sig upp á hans tempó.
– 36-52 og Danir með þrist en Kristinn Pálsson svarar í sömu mynt og 39-52…annar danskur þristur og 39-55.
– Jæja, síðari hálfleikur er hafinn og Íslendingar byrja með boltann og brotið á Halldóri Hermannssyni. Halldór setur aðeins annað vítið og minnkar muninn í 49-34.
Skotnýting Íslands í hálfleik
Tveggja 36,8% – þriggja 28,6% og víti 87,5%

(Kári Jónsson er kominn með 3 villur í hálfleik…einnig Kristinn Pálsson)
– 2. leikhluti
– Hálfleikur…staðan er 33-49 fyrir Dani. Danir unnu leikhlutann 18-17 sem var eins og gefur að skilja mun jafnari en fyrsti leikhluti. Byrjunarliðsmenn í íslenska liðinu eru margir hverjir nokkuð fjarri sínu besta en Ragnar Friðriksson hefur komið sterkur inn af bekknum og er með 9 stig, 2 fráköst og 2 stoðsendingar í hálfleik og þá er Kristinn Pálsson með 8 stig og 5 fráköst. Halldór Hermannsson hefur einnig barist vel og er kominn með 7 stig. Danirnir Larsen og Dembele eru að gera íslenska liðinu mikla skráveifu enda magnaðir leikmenn hér á ferði, hávaxnir og sterkir.
– 30-45 og Kári Jónsson að fá sína þrijðu villu, 1.35mín til hálfleiks.
– 28-41 og 2.57mín til hálfleiks, Kristinn Pálsson að gera hér auðvelda körfu eftir flott innkastkerfi hjá íslenska liðinu…Kristinn fer svo yfir í vörn og fær sína þriðju villu og heldur fyrir vikið á tréverkið.
– 26-38 Kristinn Pálsson með þrist fyrir íslenska liðið og munurinn kominn niður í 12 stig. 3.31mín til hálfleiks.
– 20-36 og 5.12mín til hálfleiks þegar Einar Árni tekur leikhlé fyrir íslenska liðið. Danir eru til þessa næstum einráðir í fráköstunum, komnir með 20 gegn 9 hjá íslenska liðinu.
– 20-33 Hér var að kvikna smá varnarljós, stolinn boltinn og auðveld karla hjá Halldóri Hermannssyni í kjölfarið eftir hraðaupphlaup, þarna eru piltarnir líkari sér.
– 18-33 Kári Jónsson skorar loks fyrir Ísland í öðrum leikhluta eftir þriggja mínútna leik. Minna skorað núna en í fyrsta leikhluta og nokkur harka farin að færast í leikinn.
– Annar leikhluti er hafinn og Danir skora, komast í 16-33 eftir sóknarfrákast.

(Hilmir Kristjánsson í frákastabaráttunni)
– 1. leikhluti
– Fyrsta leikhluta er lokið og staðan er 16-31 fyrir Dani sem hafa verið mikið betri! Lítið bit í okkar mönnum sem hafa ekki náð vörninni í gang og þá er sóknarleikurinn fremur stirður. Ragnar Friðriksson kom líflegur af íslenska bekknum og er stigahæstur eftir fyrsta leikhluta með 6 stig.
– 16-29 og 1.00mín eftir af leiknum…okkar menn segja farir sínar ekki sléttar af dómgæslunni en það breytir þó engu um að herða þurfi tökin í vörninni.
– 25-16 Ragnar Friðriksson skorar fyrir Ísland með stökkskoti í danska teignum.
– 12-25 og 2.30mín eftir af fyrsta leikhluta. Danir hafa teygt vel á íslensku svæðisvörninni og leyst vel úr pressuvörninni líka svo okkar menn þurfa að ná upp sínum varnarleik.
– 9-22 Ragnar Friðriksson setur niður tvö víti fyrirr Ísland en Danir svara því með þrist og 9-25.
– Hér var íslenska liðið að fá dæmt á sig tæknivíti vegna mótmæla en gríðarleg óánægja var með þann dóm sem var eiginlega alveg glórulaus! 22-7 og ekki aðeins settu Danir vítin heldur tróðu þeir enn eina ferðina yfir íslensku vörnina og það með látum, hér er hreinlega verið að valta yfir okkar menn á öllum sviðum.
– 7-17 og munurinn orðinn 10 stig, Larsen búinn að gera 8 af fyrstu 17 stigum Dana. Íslenska liðið er að pressa á þá dönsku og falla í svæðisvörn…5.14mín eftir af fyrsta leikhluta.
– 7-15 og 6.07mín eftir af fyrsta leikhluta og rjúkandi gangur í Dönum svo Íslendingar biðja um leikhlé.
– 7-11 Jacob Glarbjerg Larsen var hér enda við að troða með myndarbrag yfir íslensku vörnina en kappinn er búinn að sýna það að hann ætlar að verða Íslendingum erfiður í dag með alla sína 212 sentimetra eða svo.
– 4-7 Danir setja fyrsta þrist leiksins. 4-9 fyrir Dani.
– 4-4 og Danir voru ekki lengi að jafna.
– 4-0 Hilmir Kristjánsson skorar með körfu í danska teignum eftir laglega hreyfingu, íslenska liðið er að pressa eins og búast mátti við. Tempóið er hátt hér strax í upphafi leiks.
– Leikurinn er hafinn og það eru Íslendingar sem vinna uppkastið og Kári Jónsson skorar eftir það strax úr hraðaupphlaupi, 2-0.
– Þjóðsöngvunum er lokið núna svo það eru örfáar mínútur til stefnu. Við leyfum okkur að kasta því fram að þeir Einar Árni og Finnur Freyr verði með hefðbundið byrjunarlið en íslenska liðið hefur jafnan byrjað svona: Kári Jónsson, Hilmir Kristjánsson, Kristinn Pálsson, Sæþór Kristjánsson og Halldór Hermannsson.
– Nú styttist í leikinn, við megum gera ráð fyrir nokkurra mínútna töf en það ætti ekki að vera neitt alvarlegt.



