spot_img
HomeFréttirU-16 drengja með stórsigur á heimamönnum í Finnlandi og hirða silfrið

U-16 drengja með stórsigur á heimamönnum í Finnlandi og hirða silfrið

Undir 16 ára lið drengja sigraði heimamenn í Finnlandi í æsispennandi leik. Íslenska liðið þurfti að vinna leikinn með minnst 16 stigum til þess að taka silfrið. Þeir voru undir með 5 stigum í hálfleik en áttu stórkostlegan seinni hálfleik og enduðu með því að vinna með 20 stigum, 79-99.

Fyrir leik

Fyrir leik var íslenska liðið búið að spila fjóra leiki, unnið tvo og tapað tveimur á meðan Finnland var búið að vinna þrjá leiki og tapa einum. Liðin eru svipuð að styrkleika og leikurinn ætti því að verða spennandi.

Í byrjunarliði Íslands í dag voru Patrik Birmingham, Leó Steinsen, Jakob Leifsson, Róbert Óskarsson og Sturla Böðvarsson

Gangur leiks

Finnar byrjuðu betur og skoruðu fyrstu 8 stig leiksins en Ísland kom sér inn í leikinn með því að setja þrjá þrista á skömmum tíma en þeir reyndust vera einu stigin þeirra í leikhlutanum. Þegar fyrsti fjórðungur er á enda munar 8 stigum á liðunum, 17-9. Ísland mætti í skotskónum í annan leikhluta og hittu sex þrista af sjö teknum, Finnland lét það hinsvegar ekki stöðva sig þeir voru með góða pressu og leiddu með 5 stigum þegar liðin gengu til búningsherbergja, 42-37.

Í seinni hálfleik voru strákarnir ennþá heitir af þriggja stiga línunni og setti Leó 13 stig fyrstu 5 mínútur fjórðungsins. Í lok þriðja leikhluta var Ísland búið að koma sér upp 9 stiga forskoti, 56-65. Í síðasta fjórðungnum kviknaði almennilega í íslenska liðinu og myndaðist alvöru stemning í stúkunni og á bekknum. Þeir spiluðu rosalega vörn, unnu boltann trekk í trekk hátt á vellinum og nýttu færin sín vel. Þeir skoruðu 34 stig í leikhlutanum og enduðu leikinn með 20 stiga mun, 79-99.

Atkvæðamestir

Atkvæðamestur fyrir Ísland var Leó Steinsen með 21 stig. Honum næstur voru Jakob Leifsson og Róbert Óskarsson með 18 stig hvor.

Hvað svo?

Íslensku liðin eru með kvöldvöku í kvöld en síðan er haldið af stað heim á morgun.

Tölfræði

Fréttir
- Auglýsing -