Það voru 12 hressar og vel undirbúnar stúlkur sem mættu til leiks í sína fyrstu landsleiki fyrir U-15 ára landslið Íslands á dögunum. Stúlkurnar kepptu á Copenhagen Invitational mótinu og lönduðu silfurverðlaunum. Karfan.is náði á Margréti Sturlaugsdóttur þjálfara liðsins sem kvað liðið hafa æft mjög vel fyrir þá stífu dagskrá sem lögð var fyrir á mótinu.
,,Undirbúningurinn var ekki langur en strangur var hann og þær í ágætis formi enda voru leikirnir 6 á 45 klukkustundum en það þykir ágætt. Markmiðið var að vinna allt en það reyndist of stór biti en reynslan dýrmæt og framfarirnar góðar. Þarna öttu þær kappi við stórar og snöggar stelpur og snerpan og krafturinn ólíkur því sem þær eiga að venjast frá Íslandsmótinu. Stelpurnar æfðu gríðarlega vel og má segja að það hafi verið úrslitavaldurinn í þessu móti enda hefðu þær ekki haft úthald í sex leiki á svona stuttum tíma en án undirbúnings hefðu þær slasast við þetta álag. Nú vita stelpurnar hvað þær þurfa að laga og gera sér grein fyrir í hverskonar úthaldi þær þurfa að vera til að vera gjaldgengar í landslið framtíðarinnar. Að sjálfsögðu stefna þær allar á að vera í U-16 í vor sem fer á Norðurlandamótið en það ætla þær að mæta til að sigra,“ sagði Margrét.
Flestar stúlkurnar voru þarna að spila sína fyrstu millilandaleiki en tvær höfðu farið á Norðurlandamótið í vor með U-16 en það voru þær Lovísa Björt Henningsdóttir og Ingunn Embla Kristínardóttir.
Stúlkurnar enduðu í öðru sæti og uppskáru veglegan bikar og flotta medalíu en skemmtilegt er að segja frá því að Ingunn Embla stóð sig vel og komst í úrvalslið mótsins.
Ísland – Danmörk 54 – 36
Ísland – Holland 50 – 73
Ísland – Noregur 58 – 24
Ísland – Danmörk 48 – 60
Ísland – Holland 51 – 78
Ísland – Noregur 81 – 23
Stigaskipting:
Sóllilja 6
Lovísa Björt 30
Katrín Fríða 10
Guðlaug Björt 42
Birta 10
Sara Rún 50
Hallveig 13
Ingunn Embla 62
Sandra 14
Sara Diljá 14
Thelma Hrund 24
Ljósmynd/ Breiðablik átti þrjá efnilega fulltrúa í U15 ára landsliðinu.



