Tyreke Evans, bakvörður Sacramento Kings, var í kvöld útnefndur nýliði ársins í NBA-deildinni. Valið kemur fáum á óvart þar sem þessi tvítugi piltur átti ótrúlegan vetur og sýndi stöðugleika og festu sem fáum er gefið á þessum aldri.
Evans hlaut 491 stig í kjörinu og var í fyrsta sæti hjá 67 af 123 íþróttafréttamönnum sem tóku þátt í kjörinu. Annar var Stephen Curry hjá Golden State Warriors með 391 stig og 43 atkvæði í fyrsta sætið, en í því þriðja var Brandon Jennings hjá Milwaukee Bucks með 204 stig og 12 atkvæði í fyrsta sætið.
Þetta er í annað skiptið í röð sem stæðilegur leikstjórnandi yfirgefur Memphis-háskóla eftir eitt ár og verður nýliði ársins, en Derrick Rose lék þann leik í fyrra. Evans hefur hins vegar farið fram úr björtustu vonum eftir að hafa verið valinn fjórði í nýliðavalinu síðasta sumar. Hann var með 20,1 stig að meðaltali, 5,8 stoðsendingar og 5,3 fráköst og þar með aðeins fjórði nýliðinn frá upphafi til að vera með 20/5/5. Hann er ekki í dónalegum félagsskap þar sem hinir eru Oscar Robertsson, Michael Jordan og LeBron James.
Evans er ákaflega fjölhæfur, eins og sést af tölum hans, en hans helsta vopn er mögnuð knattfærni sem á sér fáa líka, sérstaklega hjá mönnum upp á nær tvo metra og 100 kíló.
Þeir þrír sem voru valdir á undan Evans eru Blake Griffin, sem meiddist fyrir leiktíðina og spilaði ekkert fyrir Clippers, Hasheem Thabeet sem náði ekki að sanna sig fyrir Memhis og var m.a. í D-deildinni á tímabili í vetur og loks James Harden, sem hefur átt ágætt tímabil fyrir Oklahoma City Thunder.
Í upphafi árs var það Brandon Jennings sem átti fyrirsagnirnar þegar hann skoraði 55 stig í sínum sjöunda leik í NBA. Hann náði þó ekki að fylgja því eftir en var engu að síður með fínar tölur, 15,5 – 5,7 – 3,4.
Stephen Curry var svo besti nýliði lokasprettsins en í fjarveru Monta Ellis sýndi Curry hvað í honum bjó og frá 1. febrúar var hann m.a. með tölurnar 21,9 – 5,1 – 7,5. Í mótslok var niðurstaðan 17,5 – 5,9 – 4,5 í viðbót við 2 stolna bolta í leik.
Heilt yfir veturinn var þó Evans yfirburðamaður þar sem hann bar hið oft sorglega lið Sacramento Kings á breiðum öxlunum og vann heilu leikina nær upp á sitt einsdæmi.
Miðað við að þetta ár var ekki fyrirfram talið með þeim sterkari hvað varðar nýliða, og þá staðreynd að líklegustu stjörnurnar Griffin og Spánverjinn Ricky Rubio, léku ekki í ár, er magnað að sjá hversu margir klassaleikmenn eru þar innan um. Þremenningarnir Evans, Curry og Jennigs eiga eftir að eiga langa og gifturíka ferla fyrir sér, en þar að auki eru menn eins og fyrrnefndur Harding, Jonny Flynn, Ty Lawson, Terrence Williams, Jrue Holiday, Darren Collison, Taj Gibson, Omri Casspi, Rodrigue Bobois, DeJuan Blair og Jonas Jerebko, en allir hafa þeir sýnt að þeir eiga vel heima meðal þeirra bestu.



