Njarðvík vann sinn þriðja leik í röð í Bónusdeild kvenna í kvöld þegar Tindastóll kom í heimsókn. Lokatölur 92-70 þar sem Njarðvíkingar leiddu frá upphafi til enda og lönduðu verðskuldað tveimur stigum í kvöld.
Stigahæst heimakvenna var Dinkins með 21 stig og 16 stoðsendingar en hjá gestunum úr Skagafirði var Madison með 26 stig og 21 frákast!
Fyrir leikinn í kvöld hafði Marta Hermida farið eins og stormsveipur um fyrstu tvær umferðir deildarinnar og gert 79 stig í tveimur leikjum, fyrst 30 og svo 49! Njarðvíkingum gekk vel að tempra hana í kvöld þó hún hafi vissulega sett 20 stig og tekið 8 fráköst.
Njarðvíkingar léku talsvert svæðisvörn í kvöld og það var ekki svo slæm hugmynd þar sem lítið vildi niður hjá gestunum en Tindastóll skaut 6-31 í þristum í kvöld sem er aðeins 19% nýting og ekki líkleg til að afla tekna.
Njarðvík leiddi 22-19 eftir fyrsta, unnu svo annan 23-18 og leiddu því 45-33 í hálfleik. Þriðja leikhluta vann Njarðvík 24-22 og fjórða 23-15 og lokatölur því 92-70 eins og áður greinir.
Dinkins gerði 21 stig og gaf 16 stoðsendingar hjá Njarðvík, Paulina var með 18 stig og 7 fráköst og þá bætti Dani við 16 stigum og 7 fráköstum. Madison var með tröllatvennu hjá Tindastól, 26 stig og 21 frákast, Marta bætti við 20 stigum og Emma Katrín var með 7.
Eftir kvöldið eru það þá Njarðvík og Grindavík sem eru ein á toppi deildarinnar og hafa unnið þrjá fyrstu leiki sína á tímabilinu. Næst á dagskrá hjá Tindastól er útileikur gegn Val og Njarðvík heimsækir KR.



