spot_img
HomeFréttirTvíhöfða skrímslið Marculinskij afgreiddi Keflvíkinga

Tvíhöfða skrímslið Marculinskij afgreiddi Keflvíkinga

 
Það fór ekki framhjá neinum sem lagði leið sína í DHL-Höllina í gærkvöld að úrslitakeppni Iceland Express deildarinnar er kominn á fullt. Pallarnir tóku að fyllast um leið og hleypt var inní salinn og stemmingin rafmögnuð. Áhorfendur tóku vel við sér frá fyrstu mínútu en fljótlega heyrðist einungis í gestunum enda byrjun Keflavíkur mögnuð.
Varnarleikur KR liðsins var sem gatasigti fyrstu mínúturnar í leiknum. Sóknarleikur Keflavíkur liðsins var skipulagður og góður og greinilega dagskipunin að fara beint inní teig á Ísafjarðartröllið, Sigurð Gunnar Þorsteinsson, sem svaraði kallinu. Við það féll vörn heimamanna saman inní teig og Andrija Ciric nýtti sér það og smellti niður tveimur þristum. Óðagot var í sóknarleik KR-inga og taugarnar vel þandar því ekkert gekk fyrr en Fannar Ólafsson náði með herkjum að skora fyrstu stig heimamanna eftir fjórar og hálfa mínútu, staðan 14-2 fyrir Keflavík. Skömmu seinna fékk Sigurður sína aðra villu og fór útaf en það kom ekki að sök því gestirnir leiddu 26-11 eftir hreint út sagt magnaðan fyrsta leikhluta.
 
Milli leikhlutanna voru ungir drengir úr Vesturbænum heiðraðir fyrir árangur sinn en það voru Íslandsmeistararnir í minnibolta drengja sem gengu stoltir útá gólf við dynjandi lófatak áhorfenda.
 
Thomas Sanders opnaði annan leikhlutann á körfu en tveir bestu menn Keflavíkur hingað til þeir Sigurður og Ciric byrjuðu leikhlutann á bekknum. KR liðið fór hægt og rólega að ná taktinum varnarlega og Marcus Walker og Pavel Ermolinskij urðu meira áberandi í sóknarleik liðsins. Í stöðunni 28-15 á sér stað ljótt atvik er þeir Skarphéðinn Freyr Ingason og Gunnar Einarsson eru að kljást um boltann á hliðarlínunni sem endar með því að Gunnar slær í andlit Skarphéðins og Sigmundur Már dómari dæmir réttilega óíþróttamannslega villu. Við það kviknaði verulega í stuðningsmönnum heimamanna og hitastigið í salnum rauk upp. Stuttu síðar brýtur Fannar Ólafsson harklega á Sigurði í hraðupphlaupi og uppsker réttilega óíþróttamannslega villu en stuttu áður hafið Sigurður fengið sína þriðju villu. Þegar þarna er komið við sögu er staðan 31-19 en Sigurður klikkar á báðum vítunum og fer síðan útaf. Við það snýst leikurinn gjörsamlega við.
 
Pavel sem hafði haft fremur hljótt um sig framan af steig heldur betur upp og bar liðið á herðum sér í gegnum restina af leikhlutanum. Hann kórónaði frábæran leikkafla hjá KR liðinu með stolnum bolta og troðslu sem minnkaði muninn í 30-31. Hreggviður Magnússon kom svo KR liðinu yfir í fyrsta sinn í leiknum með risa þrist eftir undirbúning frá Walker og þakið á leiðinni af húsinu. Hörður Axel náði loksins að brjóta ísinn fyrir gestina sem höfðu ekki skorað stig í 5 mínútur gegn frábærri KR vörn. Heimamenn leiddu 39-34 þegar flautað var til hálfleiks eftir ótrúlegan viðsnúning milli fyrstu tveggja leikhlutanna. Frábær varnarleikur KR og stórkostleg frammistaða Pavels sáu til þess að liðið vann leikhlutann 28-8.
 
Í hálfleik var Pavel kominn með 16 stig, 9 fráköst og 2 stoðsendingar. Walker setti niður tvo þrista í áhlaupinu í öðrum leikhluta og var kominn með 12. Hjá Keflavík var Ciric kominn með 10 stig, þar af þrjá þrista í fyrsta leikhluta, Sanders með 8 stig og Sigurður með 8 stig og 3 villur en hann náði einungis að spila 6 og hálfa mínútu í fyrri hálfleiknum vegna villuvandræðanna.
 
Meira jafnræði var með liðunum í þriðja leikhlutanum. Keflavík byrjaði á að minnka strax muninn niður í eitt stig með tveimur körfum frá Sanders og Ciric en KR svaraði um hæl. Þeir sem hafa lagt leið sína í DHL-höllina eftir áramót hafa eflaust tekið eftir að í þriðja leikhluta þá hefst „the Walker show“ og leikurinn í gær var engin undantekning. Í stöðunni 43-40 rann æði á manninn, hann byrjaði á að smella niður tveimur risa þristum en tók síðan uppá því að taka hvert sóknarfrákastið á fætur öðru, alls fimm í leikhlutanum og uppúr þeim skoraðið liðið 9 stig. Einmitt eftir eitt slíkt frákastið skoraði Hreggviður góða körfu og kom KR liðinu yfir 51-41 en skömmu áður hafði Sigurður fengið sínar fjórðu villu í liði Keflavíkur fyrir hræðilega litlar sakir. Með mikilli baráttu reif Hörður Axel gestina upp með látum og smellti í 6 stig í röð, 51-47. Vörn gestanna var góð á þessum tíma en vangeta liðsins til að stíga út Walker reyndist liðinu dýrtkeypt. Stór þristur frá Skarphéðni eftir sóknarfrákast og stoðsendingu frá Walker kom KR liðinu 7 stigum yfir. Sanders steig þá rækilega upp fyrir gestina og setti niður þrist og körfu og víti að auki skömmu seinna. Halldór Halldórsson minnkaði muninn niður í 2 stig með þriggjastigakörfu og stuttu seinna var munurinn aðeins 1 stig eftir að Sanders skoraði körfu og víti að auki en fyrrnefnd sóknarfráköst Walkers héldu KR-ingum við efnið. Pavel átti lokaorðið í leikhlutanum með góðu gegnumbroti og heimamenn leiddu naumlega 62-59 eftir jafnan og spennandi leikhluta.
 
Sviðið var hins vegar heimamanna í upphafi fjórða leikhlutans. Hreggviður Magnússon kveikti í húsinu með þriggja stiga körfu eftir sóknarfrákast frá Skarphéðni og Walker bætti við 4 stigum í röð án þess að gestirnir næðu að svara. Brynjar Þór sem hafði haft hægt um sig allan leikinn kom síðan með einn líkistunagla frá þriggja stiga línunni, staðan 72-60 og tæpar sjö mínútur eftir. Enn náðu gestirnir ekki að skora og Pavel bætti við 2 stigum og lokaði þar með 14-1 áhlaupi liðsins á tæplega fimm mínútna kafla. Við þetta fór mesti vindurinn úr Keflavíkurliðinu sem hafði barist hart í þriðja leikhlutanum. Þeir gerðu þó enn eina lokaatlögu og minnkuðu muninn í 8 stig eftir ævintýralegt „four point play“ frá Magnúsi Þór Gunnarssyni og körfu frá Ciric en Walker slökkti endanlega vonir gestanna með þriggja stiga körfu strax í næstu sókn. Heimamenn lönduðu svo sigrinum með góðri vítanýtingu á endasprettinum, lokatölur 87-79 og KR-ingar komnir með 1-0 forystu í einvíginu
 
Sannarlega frábær byrjun á löngu og ströngu einvígi þessara tveggja körfuboltarisa. Leikurinn hafði nánast uppá allt að bjóða sem sæmir undanúrslitaviðureign, tvö vel skipuð lið, mikil barátta, miklar sveiflur, glæsileg tilþrif, frábær stemming í stúkunni.
 
Tvær stjörnur skinu þó skærast í gærkvöld en þeir Pavel og Walker sýndu heldur betur sparihliðarnar. Pavel tók leikinn algjörlega yfir í öðrum leikhlutanum og bar liðið á herðum sér aftur inní leikinn. Hann lauk leik með 24 stig, 16 fráköst og 8 stoðsendingar en með fylgdu reyndar 9 tapaðir boltar. Walker endaði með 33 stig, 4 stoðsendingar og 5 fráköst en þessi ótrúlegi leikmaður virðist alltaf stíga upp þegar á reynir, hvort sem það er að setja stóru skotin eða stela boltum eða taka sóknarfráköst einsog raunin var í kvöld. Hreggviður Magnússon átti líka stórgóða innkomu af bekknum og setti mikilvæg stig og lauk leik með 12 stig en KR liðið vann þær mínútur sem hann var inná með 18 stigum. Nefna verður líka frammistöðu Skarphéðins en hann kom inn með gríðarlega baráttu þegar á reyndi og skilaði góðum leik. Stóru mennirnir þeir Fannar og Finnur áttu hvorugir neinn stjörnuleik og voru í villuvandræðum en Brynjar Þór átti dapran leik sóknarlega og nýtti einungis eitt af 11 þriggja stiga skotum sínum í leiknum en það kom ekki að sök.
 
Hjá Keflavíkurliðinu bar Thomas Sanders af en þessi stórskemmtilegi leikmaður skilaði tröllatölum, 28 stigum 9 fráköstum (þar af 7 í sókn) og 6 stoðsendingum. Hann sýndi á köflum mögnuð tilþrif þar af eina flotta troðslu eftir sóknarfráköst en hann átti svo aðra tvær troðslutilraunir af dýrari gerðinni yfir KR liðið sem því miður gengu ekki eftir. Það er ljóst að Keflvíkingar mega ekki við því að missa Sigurð í villuvandræði því liðið er ekki eins með hann á bekknum. Eftir frábæra byrjun lenti hann í miklum villuvandræðum en náði þó að skila 11 stigum og 10 fráköstum á þeim 20 mínútum sem hann lék en þær mínútur unnu Keflavík með 16 stigum. Andrija Ciric átti einnig ágætis leik með 16 stig og 5 fráköst en hann og Sigurður virðast ná vel saman í sóknarleiknum. Hörður Axel lauk leik með 10 stig, 9 fráköst og 5 stoðsendingar en hefur oft leikið mun betur og þarf hann að stíga vel uppí næsta leik ef Keflavík ætlar sér sigur. Vonbrigði leiksins hljóta þó að vera þeir Magnús Gunnarson og Gunnar Einarsson sem náðu sér engan veginn á strik fyrir Keflavíkurliðið. Þessir tveir frábæru leikmenn búa yfir gríðarlegri reynslu í úrslitakeppninni og skal engan undra ef þeir tveir ná að snúa taflinu við í næsta leik.
 
Næsta viðureign liðanna fer fram í Toyota-höllinn í Keflavík á miðvikudaginn kl 19.15. Þar hafa heimamenn verið á mikilli siglingu og munu þar verja sinn heimavöll með kjafti og klóm fram í rauðan dauðann. Það verður enginn svikinn á að gera sér ferð á þann leik frekar en aðra leiki í úrslitakeppninni sem heldur áfram að vera frábær skemmtun einsog undanfarin ár.
 
Umfjöllun: FFS
Fréttir
- Auglýsing -