23:18
{mosimage}
(Magnús Þór Gunnarsson setti 32 stig í kvöld)
Njarðvíkingar unnu sinn annan sigur í röð í Iceland Express deild karla þegar þeir lögðu Breiðablik 103-107 eftir tvíframlengdan leik í Smáranum í kvöld. Framan af var leikurinn lítt fyrir augað en það átti eftir að breytast þegar á leið og fengu áhorfendur æsilegan lokasprett þar sem sigurinn gat dottið báðum megin. Nemanja Sovic fékk tvívegis tækifæri í kvöld til þess að gera út um leikinn en misnotaði bæði skotin sín, fyrst þegar venjulegur leiktími var að renna út og svo aftur í lok fyrri framlengingarinnar. Eftir sigurinn í kvöld eru Njarðvíkingar komnir upp að hlið Keflavíkur og Tindastóls í 3. sæti deildarinnar en Blikar eru áfram með 8 stig.
,,Þetta var spennandi leikur og ég tek ofan af fyrir mínum mönnum að hafa klárað leikinn. Við verðum samt að bæta vörnina hjá okkur ef við ætlum okkur eitthvað framar í vetur,“ sagði Valur Ingimundarson þjálfari Njarðvíkinga í samtali við Karfan.is í leikslok. ,,Við höfum náð mjög hagstæðum úrslitum undanfarið og erum komnir á góðan stað í deildinni og ég er rosalega stoltur af þessu liði,“ sagði Valur og aðspurður um veglegt framlag frá Hirti Hrafni Einarssyni undanfarið svaraði Valur:
,,Hann hefur verið að fá sénsinn og er að nýta sér það, Hjörtur er góður leikmaður og jákvæð persóna og gott að þjálfa hann og virkilega sterkur inni í liðinu okkar,“ sagði Valur en Hjörtur gerði 25 stig í liði Njarðvíkinga í kvöld, gaf 5 stoðsendingar og tók 4 fráköst.
Njarðvíkingar leiddu 13-19 eftir fyrsta leikhluta sem var nokkuð tíðindalítill. Grétar Garðarsson kom sterkur inn í Njarðvíkurliðið undir lok fyrsta leikhluta og gerði fjögur síðustu stig leikhlutans.
Snemma í öðrum leikhluta fengu Blikar dæmda tæknivillu á bekkinn fyrir mótmæli og það mótlæti virtist efla heimamenn sem náðu að komast yfir 26-25 með þriggja stig körfu frá Daníeli Guðmundssyni sem fékk vítaskot að auki sem hann setti niður og Blikar því með fjögurra stiga sókn. Eftir þetta voru heimamenn grimmari og náðu upp sex stiga forskoti og leiddu 37-31 í hálfleik.
{mosimage}
(Rúnar Ingi Erlingsson laumar sér framhjá Andra Freyssyni)
Magnús Þór Gunnarsson var ekki að finna skotin sín í fyrri hálfleik en Blikar fengu að kenna á vopnum Magnúsar í síðari hálfleik. Reyndar byrjuðu heimamenn 5-0 í seinni háflleik og staðan orðin 42-31 en þá tóku gestirnir við sér. Magnús fór í gang sem og Logi Gunnarsson og eftir að Logi gerði fimm stig í röð var staðan orðin 50-47 Blikum í vil. Skömmu síðar skoraði Hjörtur Hrafn þrist fyrir Njarðvík og kom sínum mönnum í 51-53 og yfir í leiknum. Magnús Gunnarsson gerði svo svakalegan flautuþrist í lok þriðja leikhluta er hann skaut úr ómögulegri stöðu yfir varnarmann Blika og hitti spjaldið og ofan í, við erum að ræða um Magnús Gunnarsson gott fólk svo það er eiginlega ekki hægt að segja að þetta hafi verið heppni! Staðan að loknum þriðja leikhluta var því 51-56 Njarðvíkingum í vil. Ótrúlega sveiflukenndur leikur og von á spennandi lokaspretti.
Í fjórða leikhluta skiptust liðin á forystunni og Halldór Örn Halldórsson kom reglulega með mikilvægar þriggja stiga körfur fyrir Blika. Rúnar Ingi Erlingsson var að finna sig vel fyrir Blika gegn uppeldisfélaginu en þeir Logi og Magnús drógu vagninn í stigaskorinu fyrir Njarðvík ásamt Hirti Hrafni.
Þegar 38 sekúndur voru til leiksloka kom Kristján Rúnar Sigurðsson Breiðablik í 81-78 en strax í næstu sókn var Magnús Gunnarsson klókur þegar hann plataði Rúnar Inga Erlingsson upp í loftið sem braut á Magnús í þriggja stiga skoti. Vélbyssan Magnús hélt á vítalínuna og þau skot höfnuðu vitaskuld í netinu. Staðan orðin 81-81 þegar 7 sekúndur voru til leiksloka. Blikar tóku tíma og klúðruðu boltanum frá sér, Njarðvík fékk innkastið og klúðraði boltanum aftur upp í hendur Blika. Þegar 2,91 sek. voru eftir á klukkunni áttu Blikar því innkast við miðjuna og gáfu boltann á Nemanja Sovic í hægra horninu sem reyndi teigskot en það geigaði og því varð að framlengja í stöðunni 81-81.
Nemanja Sovic gerði fimm fyrstu stig Breiðabliks í framlengingunni. Kristján Rúnar Sigurðsson gerði svo stóran þrist og kom heimamönnum í 91-86 en Njarðvíkingar voru ekki af baki dottnir og Friðrik Erlendur Stefánsson minnkaði muninn í 93-92 af vítalínunni en Njarðvíkingar tóku alls 40 vítaskot í leiknum en Blikar 21.
8 sekúndur voru eftir af framlengingunni þegar Njarðvíkingar brutu á Rúnari Inga sem fór á vítalínuna og kom Blikum í 94-92. Í næstu sókn var brotið á Loga Gunnarssyni þegar 3 sekúndur voru til leiksloka og honum brást ekki bogalistin á línunni og jafnaði Logi metin í 94-94. Aftur fékk Nemanja Sovic tækifæri til að gera út um leikinn en brenndi af öðru lokaskoti í hægra horninu og því varð að grípa til annarar framlengingar.
{mosimage}
(Sovic sækir að Njarðvíkurkörfunni)
Þegar hingað var komið voru lykilmenn að lenda í villuvandræðum. Svo fór að Nemanja Sovic fékk sína fimmtu villu og þá vantaði töluvert í sóknarbrodd heimamanna. Friðrik Stefánsson var öruggur á vítalínunni í kvöld og setti niður 7 af 9 vítum sínum í leiknum. Tvö þeirra komu þegar 1.04 mín. voru til leiksloka og Njarðvíkingar yfir 100-103. Í næstu sókn misfórst þristur hjá Rúnari Inga og brotið var á Magnúsi Gunnarssyni sem kom Njarðvík í 100-105 með tveimur vítum.
Kristján Rúnar Sigurðsson kveikti smá von fyrir Blika með þristi og staðan 103-105 þegar 12 sekúndur voru eftir en Njarðvíkingar voru þarna komnir í lykilstöðu sem þeir létu ekki frá sér og unnu 103-107 útisigur í Kópavogi.
Magnús Þór Gunnarsson var lengi í gang í kvöld en hann funhitnaði á endanum og gerði alls 32 stig, tók 7 fráköst og gaf 7 stoðendingar hjá Njarðvík. Næstur var Logi Gunnarsson með 29 stig, Hjörtur Hrafn með 25 og Friðrik Erlendur Stefánsson með 15.
Hjá Blikum var Nemanja Sovic með 32 stig, 13 fráköst og 4 stoðsendingar en honum næstur kom Rúnar Ingi Erlingsson með 24 stig og 9 stoðsendingar. Kristján Rúnar Sigurðsson gerði svo 21 stig og tók 8 fráköst.
{mosimage}
(Logi Gunnarsson)



