spot_img
HomeFréttirTvíframlengt í Schenkerhöllinni

Tvíframlengt í Schenkerhöllinni

Það var heldur betur boðið uppá körfuboltaveislu í Schenkerhöllinni í kvöld þegar Haukar fengu Grindavík í heimsókn í 21. umferð Dominosdeildar kvenna en leikurinn var tvíframlengdur og æsispennandi. Liðin skiptust samtals 19 sinnum á forustunni og þar af aðeins þrívegis í fyrri hálfleik. Þristar flugu hægri vinstri hjá báðum liðum á mikilvægum augnablikum í leiknum og þrátt fyrir villuvandræði hjá Haukum í fyrri framlengingunni þá tókst þeim að klára leikinn og sigruðu 93-83.
 
Byrjunarlið Hauka: Auður Íris Ólafsdóttir, Inga Sif Sigfúsdóttir, Gunnhildur Gunnarsdóttir, María Lind Sigurðardóttir og Siarre Evans.
 
Byrjunarlið Grindavíkur: Berglind Anna Magnúsdóttir, Crystal Smith, Ingibjörg Yrsa Ellertsdóttir, Helga Rut Hallgrímsdóttir og Petrúnella Skúladóttir.
 
Grindavík byrjaði leikinn betur og voru 13-17 yfir þegar þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum en þá kom mjög góður kafli hjá Haukum þar sem þær yfirspiluðu Grindavík með 12-2 kafla og leiddu því með sex stigum, 25-19 eftir fyrsta leikhlutann.
 
Haukar héldu áfram að auka muninn og komust með 11 stigum yfir í stöðunni 30-19. Grindavík kom þá aðeins tilbaka og náði að minnka muninn í fjögur stig, 37-33, í hálfleik.
 
Í þriðja leikhluta byrjaði fjörið, liðin skiptust á forustunni í átta skipti og átti leikurinn eftir að vera í járnum næstu 25 mínúturnar.
 
Haukar voru eilítið með yfirhöndina í fjórða leikhluta þangað til að Berglind Anna Magnúsdóttir setti niður einn dýran þrist og kom Grindavík í 58-59. Eftir eina mínútu af darraða dans hjá báðum liðum þá tókst Auði Írisi Ólafsdóttir að stela boltanum af Jóhönnu Rún Styrmisdóttur og brunaði hún og Margrét Rósa Hálfdanardóttir í hraðaupphlaup þar sem að Margrét ákvað að toppa Berglindi og skellti sjálf í þrist af dýru gerðinni. Eftir ferðir á vítalínuna hjá báðum liðum var staðan 63-63 þegar Gunnhildur Gunnarsdóttir þrumar niður þrist með 21 sek. eftir af leiknum. Magnað skot en það fékk ekki að standa lengi, Crystal Smith svaraði með dýrasta þristunum hingað til sek. síðar og jafnaði leikinn. Siarre Evans átti að klára seinustu sókn leiksins og var að drippla niður tímann. Þegar hún ætlaði svo að leggja af stað þá tókst Smith að stela af henni boltanum en tíminn rann svo út áður en hún náði skoti.
 
Fyrri framlengingin var mjög jöfn og skiptust liðin á að skora. María Lind Sigurðardóttir, sem var búinn að eiga afbrigðisleik, setti 6 stig í röð fyrir Hauka en Petrúnella Skúladóttir svaraði með enn einum þristinum og kom Grindavík yfir, 74-76. Það var eins og áður, einum mögnuðum þrist var strax svarað með öðrum og núna var það Evans. Stemningin í húsinu var ansi hreint skemmtileg á þessum tímapunkti. María fær svo dæmda á sig sína fimmtu villu og Smith fer á vítalínuna en brennir af fyrra skotinu sínu og tekst því aðeins að jafna leikinn. Jóhanna Björk Sveinsdóttir kom inn fyrir Maríu og fékk strax að fara á vítalínuna og virtist spennustigið vera farið að hafa áhrif á leikmennina því eins og Smith þá misnotaði Jóhanna fyrra skotið sitt. Með 24 sek. eftir af leiknum fær Margrét Rósa sína fimmtu villu og sendir Jeanne Lois Figeroa Sicat á línuna sem fer eins að og bæði Smith og Jóhanna á undan henni og nær því aðeins að jafna leikinn. Eins og í leik venjulegs leiktíma eiga Haukar boltann en núna var annað leikkerfi valið. Það leiddi til þess að Jóhanna fékk boltann undir körfunni og náði sniðskoti á sama tíma og tíminn rann út en boltinn rullaði af hringnum.
 
Í seinni framlengingunni kom Dagbjört Samúelsdóttir Haukum 5 stigum yfir með mögnuðum þrist, og var undirritaður farinn að velta því fyrir sér hvaðan allur peningurinn væri að koma fyrir allar þessar rándýru körfur.. Grindavík reyndi að svara með því að láta Petrúnellu sækja hart að Evans sem var komin með fjórar villur og því ekki líkleg til að brjóta á henni en Petrúnellu, ásamt Grindavíkur liðinu öllu á þessum tímapunkti, gekk ekkert að setja boltan ofan í körfuna. Grindavík reyndi að stöðva Hauka með því að vera með fjóra leikmenn í pressu fyrir framan miðju en Haukum tókst að leysa það og fengu tvívegis auðveld sniðskot í staðinn. Haukar unnu því góðan 93-83 í æðislega skemmtilegum körfubolta leik.
 
Stigahæstar hjá Haukum voru: Siarre Evans 26 stig/19 fráköst/5 stoðsendingar/3 varin skot, María Lind Sigurðardóttir 18 stig, Gunnhildur Gunnarsdóttir 16 stig/8 fráköst/9 stoðsendingar/5 stolnir boltar, Jóhanna Björk Sveinsdóttir 13 stig/10 fráköst/3 varin skot
 
Stigahæstar hjá Grindavík voru: Crystal Smith 38 stig/8 fráköst/4 stoðsendingar/7 stolnir boltar, Petrúnella Skúladóttir 14 stig/5 fráköst, Berglind Anna Magnúsdóttir 13 stig/6 fráköst, Helga Rut Hallgrímsdóttir 10 stig/8 fráköst
 
Leikmenn leiksins: Siarre Evans, María Lind Sigurðardóttir og Gunnhildur Gunnarsdóttir.
 
 
Mynd/ úr safni
Fréttir
- Auglýsing -