spot_img
HomeFréttirTvennutröllið Smith fór mikinn í Fjölnissigri

Tvennutröllið Smith fór mikinn í Fjölnissigri

 
Fjölnismenn hífðu sig upp af botni deildarinnar í kvöld með fræknum varnarsigri gegn Snæfell í Iceland Express deild karla. Lokatölur í Grafarvogi voru 69-64 Fjölni í vil eftir æsispennandi lokamínútur. Christopher Smith fór hamförum í liði Fjölnis í kvöld með 25 stig og 19 fráköst en kappinn sá fæst ekki inn á parketið nema skila af sér myndarlegri tvennu. Sean Burton var stigahæstur hjá Snæfell í kvöld með 20 stig en það var gaman að fylgjast með glímu hans og Ægis Þórs Steinarssonar enda eldibrandar þarna á ferðinni. Með sigrinum komst Fjölnir upp í 10. sæti deildarinnar og hefur nú 10 stig rétt eins og Tindastóll og ÍR.
Gestirnir úr Hólminum byrjuðu vel og komust í 5-14 eftir að Sigurður Þorvaldsson landaði fjögurra stiga sókn þegar Ingvaldur Magni Hafsteinsson braut á honum í þriggja stiga skoti. Heimamenn ætluðu þó ekki að láta vaða yfir sig og minnkuðu muninn í 16-18 og þannig stóðu leikar eftir fyrstu 10 mínúturnar.
 
Arnþór Freyr Guðmundsson var ekki lengi að koma Fjölnismönnum í bílstjórasætið með þriggja stiga körfu og staðan 25-22. Níels Dungal kom ákveðinn af bekknum hjá Fjölni og gerði nokkrar góðar körfur og ekki var lengi að bíða að Pálmi Freyr Sigurgeirsson fengi mínútur í liði Snæfells en hann náði einu þriggja stiga skoti sem hafnaði í hlið körfunnar. Pálmi lék aðeins í 3 mínútur í leiknum og á því örugglega nokkuð í land með að ná hestaheilsu en í gær greindu Hómarar frá því að leiktíðin væri ekki úti hjá Pálma eins og læknar höfðu þegar haldið fram.
 
Ægir Þór gerðist full ákafur undir lok fyrri hálfleiks og hafði á skömmum tíma nælt sér í sína fjórðu villu. Ein af þeim var ekki verðskulduð og Fjölnismenn lítt sáttir við gang mála hjá leikstjórnandanum sínum.
 
Fjölnismenn létu þó deigan ekki síga heldur leiddu 39-33 í hálfleik þar sem þeir Ægir og Christopher Smith voru báðir komnir með 8 stig en Sean Burton 11 í liði Snæfells.
 
Í upphafi síðari hálfleiks leituðu heimamenn oft í teiginn og fundur þar Christopher Smith. Snæfellingar höfðu góðar gætur á Smith framan af þriðja leikhluta en gerðu þau mistök að gleyma því að stíga hann út. Smith þakkaði fyrir sig með fjölda sóknarfrákasta sem vel flest enduðu með körfu enda fáar lyftur í deildinni sem fara á sömu hæð og Smith.
 
Undir lok þriðja leikhluta skiptu Snæfellingar í svæðisvörn og Fjölnismenn bitu á agnið, tóku opnu skotin og slæmu skotin og hvorug skotin vildu rata rétta leið. Vörn heimamanna var þó þeirra haldreipi því bæði var sóknarleikur gestanna stirður og nýtingin oft verið betri. Staðan fyrir fjórða leikhluta var 56-47 Fjölni í vil og hvert stig hafði nánast vegið þyngd sína í gulli fram að þessu. Í fjórða leikhluta höfðu stigin svo ígildi platínu.
 
Áður en fjórði leikhluti hófst var skipt um annan dómara leiksins. Halldór Geir Jensson hélt af velli sökum meiðsla og Davíð Hreiðarsson kom inn í hans stað og dæmdi síðustu 10 mínútur leiksins með Kristni Óskarssyni.
 
Christopher Smith jók muninn í 10 stig, 58-48, í upphafi fjórða leikhluta og lengi vel virtust Fjölnismenn ætla að sigla í átt að öruggum sigri en Hólmarar höfðu ekki sungið sitt síðasta. Jón Sverrisson kom flottur inn af bekk Fjölnis í kvöld og þá sér í lagi í fjórða leikhluta. Framan af leik hafði hann leikið vel og stigið upp á réttum tíma þar sem Sindri Kárason var ekki að finna taktinn í kvöld. Jón lauk leik með 10 stig og 5 fráköst og lék góða vörn.
 
Í 37 mínútur sýndu Snæfellingar allt annan leik en þeir buðu upp á gegn Keflavík í tveimur leikjum í röð fyrir skemmstu. Eitthvað eimaði þó eftir af Keflavíkurvímu þeirra Hólmara því á lokasprettinum gerðu þeir heiðarlega tilraun til þess að stela sigrinum.
 
Þegar 44 sekúndur voru til leiksloka stal Martins Berkis boltanum fyrir Snæfell, brunaði upp og sallaði niður þriggja stiga körfu og minnkaði muninn í 67-64. Í næstu sókn var dæmt skref á Christopher Smith og 28 sekúndur til leiksloka. Jón Ólafur Jónsson reyndi að jafna metin með langskoti en það geigaði og Hlynur Bæringsson braut á Smith eftir frákastið. Smith hélt yfir völlinn og setti niður tvö víti og tryggði Fjölni sigurinn, 69-64.
 
Christopher Smith var besti maður vallarins í kvöld með 25 stig, 19 fráköst, 2 stoðsendingar og 2 varin skot. Þeir Ægir og Jón Sverrisson komu næstir með 10 stig og Níels Dungal gerði 7 stig.
 
Hjá Snæfell var Burton með 20 stig og 3 stoðsendingar og Jón Ólafur Jónsson gerði 18 stig og tók 6 fráköst. Hlynur Bæringsson hélt uppteknum hætti í frákastabaráttunni og tók 19 fráköst líkt og Smith en skoraði 9 stig.
 
Dómarar leiksins: Kristinn Óskarsson og Halldór Geir Jensson. Halldór Geir varð frá að víkja eftir þrjá leikhluta í kvöld sökum meiðsla og við honum tók Davíð Hreiðarsson og gerði vel að komast inn í leikinn á jafn skömmum tíma.
 
 
Fréttir
- Auglýsing -