spot_img
HomeFréttirTveir titlar í röð engin magafylli í Vesturbænum

Tveir titlar í röð engin magafylli í Vesturbænum

Íslandsmeistarar KR leiða 1-0 í 8-liða úrslitum eftir öruggan 85-67 sigur á Grindavík. Kvöldið í kvöld var rétti tíminn fyrir Grindavík til að grípa KR með brækurnar á hælunum en svo varð nú aldeilis ekki. Eins og veðjandi menn myndu segja, „gott bet“ fyrir Grindavík að leggja allt í sigur í kvöld en í stað þess voru menn bara flatir og hákarlarnir í KR voru ekki lengi að finna þann dauninn af gestum sínum og hjóluðu í bráðina. Í stuttu máli sagt, umtalsverður munur er á liðunum og KR þurfti ekki að hafa neitt gríðarlega mikið fyrir því að sýna fram á þann mun í kvöld. Meistararnir stukku út á gólf og sýndu að tveir titlar í röð er engin magafylli í Vesturbænum. 

Brynjar Þór átti þrjá þrista þegar KR flaug af stað 11-0 en Jón Axel Guðmundsson afrekaði fyrstu stig gestanna, 11-2 eftir sóknarfrákast. Darri Hilmarsson var settur til höfuðs Jóni Axeli og gaf það vel, sá ungi mátti þola það svona fimm sinnum að brotið var á honum en ekkert dæmt. Þeir tala ekki um að önnur keppni sé hafin að ástæðulausu! 

 

KR sundurspilaði þessa varnarómynd Grindavíkur í fyrsta leikhluta og leiddu 27-15 að honum loknum. Heimamenn fengu bara þessi flottu „look“ á körfuna og satt best að segja nánast undarlegt að munurinn hefði ekki verið meiri. Á sóknarendanum voru gestirnir trúlausir og 4-17 í teignum geta staðfest það. Heimamenn að sama skapi 4-8 í teig og 6-9 í þristum. 

 

Þrír lykilmenn beggja liða sáu sínar þriðju villur í fyrri hálfleik, Darri og Brynjar í liði KR og Jón Axel í liði Grindavíkur. Helgi Magnússon tók að sér rispu í öðrum leikhluta fyrir KR, tjakkaði menn og skoraði grimmt og var með 16 stig í hálfleik. Jóhann Árni Ólafsson gerði eina þrist Grindavíkur í fyrri hálfleik og KR leiddi 49-33 að honum loknum. 

 

Fyrri hálfleikur var skuldlaus eign KR og í raun átakanlegt að fylgjast með andleysinu í ranni Grindavíkur. Gestirnir gátu vel fært rök fyrir því að eitthvað hallaði á þá í dómgæslunni en hitt er líka satt að þeir virtust bara ekki tilbúnir í átökin þessar fyrstu 20 mínútur. 

 

Helgi Magnússon var með 16 stig hjá KR í hálfleik og Brynjar Þór Björnsson 13 stig. Hjá Grindavík var Chuck Garcia með 11 stig og Ómar 10. Einu bakverðir Grindavíkur sem skoruðu allan fyrri hálfleikinn voru þeir Jóhann Árni og Jón Axel og það voru lítil níu stig. 

 

Kunnuglegt stef heyrðist í upphafi síðari hálfleiks, Brynjar Þór með þrist og framan af þriðja leikhluta var ekki að sjá að Jóhann hefði gefið sínum mönnum neina hárþurrkumeðferð í hálfleik. Grindvíkingar unnu þó á í þriðja leikhluta. Jens Valgeir Óskarsson bauð upp á snúning í teignum og með laghentu sveifluskoti minnkaði hann muninn í 61-51. Heimamenn í KR voru samt svo kyrfilega sestir við stýrið að Grindavík átti aldrei séns. 

 

Staðan 68-55 fyrir fjórða leikhluta og eftir að KR opnaði fjórða með 12-2 dembu þá var þetta endanlega farið og lokatölur reynudst 85-67. 

 

Jón Axel Guðmundsson landaði þrennu í liði Grindavíkur í kvöld en þrennurnar eru alltaf mun meira „sexý“ í sigurleik en þetta voru 10 stig, 12 fráköst og 10 stoðsendingar. Michael Craion og Helgi Már Magnússon voru báðir með 19 stig í liði KR og Brynjar Þór Björnsson gerði 17. 

 

Annar leikur liðanna fer fram í Grindavík á sunnudag og ef áfram heldur sem horfir verður það næstsíðasti leikur Grindavíkur á tímabilinu. 

 

Tölfræði leiksins
Myndasafn – Bára Dröfn

Umfjöllun/ Jón Björn 
Myndir/ Bára Dröfn

Fréttir
- Auglýsing -