Tindastóll tók á móti Hamar/Þór í Bónus deild kvenna í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld þar sem bæði lið þurftu á sigri að halda.
Leikurinn fór erfiðlega af stað hjá báðum liðum, nokkuð um tapaða bolta en Stólastúlkur voru skrefi á undan fram um miðjan leikhlutann þegar Mariana setti 5 stig í röð og þristur frá Jadakiss kom gestunum í 9-15. Stólar komu aðeins til baka en gestirnir leiddu 17-21 eftir fyrsta fjórðung. Þær bættu svo í í byrjun annars fjórðungs en heimastúlkur komu til baka, drifnar áfram af Maddie sem fór hamförum. Þristur frá Brynju kom Stólum svo 4 stigum yfir um miðjan leikhlutann en þá kom aftur áhlaup frá gestunum sem leiddu svo með einu stigi í hálfleik.
Tvö víti frá Maddie komu Stólum einu stigi yfir í byrjun þriðja leikhluta en þá komu 3 þristar í röð frá gestunum sem náðu 8 stiga forystu. Liðin skiptust svo á körfum en Stólar náðu síðustu 5 stigum fjórðungsins og munurinn aðeins 3 stig fyrir lokaátökin 60-63. Sami barningurinn hélt áfram inn í fjórða leikhluta og þegar 3 og hálf mínúta var liðin höfðu aðeins komið 2 körfur, báðar frá Stólum sem komust þá yfir 64-63. Jóhanna Ýr kom gestunum einu stigi yfir þegar 2:24 voru eftir en þá komu 9 stig í röð frá heimastúlkum sem kláruðu leikinn þó gestirnir hafi hleypt spennu í þetta með þrist þegar 10 sekúndur voru eftir. Lokatölur 80-78
Maddie Sutton skilaði tröllatvennu fyrir Stóla, endaði með 20 stig og 19 fráköst. Marta bætti við 21 stigi og 7 stoðsendingum og Alejandra setti líka 20 stig. Hjá gestunum var Mariana atkvæðamest með 20 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar.
Umfjöllun / Hjalti Árna



