10:59:07
Kvennakörfubolti hefur lengi átt undir högg að sækja þar sem jafnvel besta deild í heimi, WNBA, hefur átt í vandræðum með að lokka til sín áhorfendur bæði í íþróttahallirnar og að sjónvarpstækjunum. Því var það mikill hvalreki þegar stórstjarnan Candace Parker kom inn í deildina með miklum krafti í fyrra og var valin bæði nýliði ársins og besti leikmaðurinn eftir ótrúlegt tímabil fyrir LA Sparks.
Parker skrifaði sig inn í sögubækurnar fyrir að vera aðeins önnur konan sem hefur troðið í WNBA leik (hin var liðsfélagi hennar Lisa Leslie) en hún bætti um betur og tróð einnig í næsta leik þar á eftir.
Nú er komin á sjónarsviðið ung stúlka sem virðist hafa allt til að bera til að slá Parker við, en hin 18 ára Brittney Griner, sem er að ljúka síðasta árinu sínu í miðskóla, hefur gert flesta körfuboltaspekinga orðlausa með frammistöðu sinni.
Griner, sem er rétt rúmir 2 metrar á hæð, er sannkallað undrabarn sem hefur ekki bara hæfileika og leikskilning heldur getur troðið að vild. Ekki nóg með það heldur býður hún reglulega upp á þrumutroðslur með miklum tilþrifum sem hafa ekki sést hjá konu til þessa dags.
Fræg eru myndbönd á YouTube þar sem Griner treður á æfingum, en hún lætur ekki sitt eftir liggja í leikjum og tróð m.a. tvisvar í sama leiknum á dögunum. Þá er að sjálfsögðu ekkert grín að reyna að skora gegn henni, en hún náði því m.a. í vetur að verja 25 skot í einum leik. Hitt liðið skoraði einungis 18 stig í öllum leiknum.
Auðvitað sakar ekki að vera mörgum stærðarflokkum fyrir ofan flestalla andstæðinga þegar kemur að stigaskorun, fráköstum og vörðum skotum, en þeir sem best til þekkja í kvennaboltanum eru sannfærðir um að hún eigi eftir að láta mikið að sér kveða þegar hún fer upp í atvinnumennsku. Griner hefur ákveðið að leika með Baylor háskólanum á næsta ári, en körfuknattleiksáhugafólk bíður í ofvæni eftir að sjá hana reyna sig gegn bestu leikmönnum heims þegar að því kemur.
Þá er jafnvel talið að hún verði enn stærri og meiri því að sérfræðingar telja að hún geti jafnvel orðið allt að 210 sm með tímanum.
Fram að því verður gaman að fylgjast með framgöngu Griner en hér má sjá frétt og viðtal við hana og hér að neðan má sjá tengla með tilþrifum hennar.
http://www.youtube.com/watch?v=fH87IHzOLH4
http://www.youtube.com/watch?v=flvZrcXXSj0
http://www.youtube.com/watch?v=UO-iH1UniSc
http://www.youtube.com/watch?v=UO-iH1UniSc



