spot_img
HomeSubway deildinSubway deild karlaTurner sneri taflinu við - Stjarnan vann í framlengingu

Turner sneri taflinu við – Stjarnan vann í framlengingu

Stjörnumenn tóku á móti ÍR í fyrstu umferð Subway-deildar karla í gærkvöldi. Í spá fyrirliða og þjálfara deildarinnar hafði Stjörnumönnum verið spáð 3. sæti, en gestunum úr Breiðholti var spáð því níunda.

Gestirnir úr Breiðholti mættu mun sterkari til leiks og höfðu 11 stiga forskot í hálfleik, 42-53. Stjörnumenn virkuðu verulega vankaðir í sóknarleik sínum, og gátu varla keypt sér körfu. Shawn Dominique Hopkins var sá eini í liði heimamanna sem virtist með réttum sönsum í fyrri hálfleik, en aðrir náðu sér ekki á strik. Ekki var vörn heimamanna mikið skárri, sem sýnir sig í því að ÍR-ingar skoruðu 53 stig í fyrstu tveimur fjórðungunum.

Stjörnumenn náðu aðeins að rétta hlut sinn í þriðja leikhluta, en gestirnir höfðu átta stiga forskot fyrir lokafjórðunginn, 70-78. Á þessum tímapunkti leit allt út fyrir að gestirnir tækju sigurinn heim í Breiðholtið, en Stjörnumenn voru á öðru máli. Eftir frekar daprar 35 mínútur vaknaði Robert Turner III skyndilega til lífsins þegar um fimm mínútur voru eftir. Turner hafði skorað 6 stig fyrstu þrjá leikhlutana, en síðustu mínútur venjulegs leiktíma var hann óstöðvandi. Turner sneri leiknum algerlega við, Garðbæingum í vil, skoraði 16 stig í fjórða leikhluta og tryggði heimamönnum framlengingu, staðan 99-99 í lok venjulegs leiktíma.

Í framlengingunni voru Stjörnumenn síðan einfaldlega miklu betri. ÍR-ingar virtust búnir á því og unnu heimamenn að lokum 11 stiga sigur, 113-102.

Bestur

Eftir frekar dapran leik fyrstu þrjá leikhlutana sprakk Robert Turner III algerlega út í þeim fjórða. Fyrstu þrjá leikhlutana bauð Turner upp á 30% skotnýtingu og 0% vítanýtingu, en hafði að vísu tekið 8 fráköst og gefið 8 stoðsendingar. Í fjórða leikhluta og framlengingunni skoraði Turner hins vegar 20 stig, með 50% skotnýtingu, og lauk leik með þrennu, 26 stig, 11 fráköst og 10 stoðsendingar. Shawn Dominique Hopkins var líka öflugur í liði Stjörnunnar, og var stigahæsti leikmaður liðsins með 29 stig auk 8 frákasta. Hjá ÍR var Shakir Smith öflugur með 30 stig.

Framhaldið

Stjörnumenn fara til Keflavíkur í annarri umferð, en ÍR-ingar fara í Smárann þar sem þeir mæta Breiðablik. Báðir leikirnir fara fram 15. október.

Fréttir
- Auglýsing -