Íslenska landsliðið heldur undirbúningi sínum áfram fyrir lokamót EuroBasket sem fer af stað í lok mánaðar.
Í kvöld mátti liðið þola ósigur gegn heimamönnum í Portúgal í æfingaleik, 83-79. Líkt og tölurnar gefa til kynna var leikurinn nokkuð spennandi undir lokin, en Ísland var með forystuna dágóðan tíma í honum. Á lokasekúndunum fékk Ísland nokkur tækifæri til þess að taka forystuna, en allt kom fyrir ekki.
Stigahæstur fyrir Ísland í leiknum var Tryggvi Snær Hlinason með 16 stig. Þá skilaði Martin Hermannsson 13 stigum, Orri Gunnarsson 12 stigum og Elvar Már Friðriksson og Jón Axel Guðmundsson 8 stigum hvor.
Hér má sjá það helsta úr leiknum
Í heild hefur Ísland leikið fjóra æfingaleiki fyrir lokamótið og náð í sigur í einum þeirra gegn Svíþjóð í gær. Lokaæfingaleikur þeirra fyrir mótið er gegn sterku liði Litháen í Alytus þann 23. ágúst.



