Tryggvi Snær Hlinason leikmaður Þór Ak mun yfirgefa félagið í sumar og leika á erlendri grundu á næsta tímabili. Þetta staðfesti hann í samtali við Karfan.is í dag.
Tryggvi Snær sem er 19 ára gamall var í landsliðshóp Íslands í undankeppni Eurobasket sem fór fram síðasta haust. Hann var á dögunum valinn besti leikmaður Þór Ak á tímabilinu en félagið sem var nýliðar í Dominos deild karla endaði í áttunda sæti deildarinnar.
Hann endaði með 11,6 stig, 8,1 frákast, 66% skotnýtingu utan af velli og 2,4 varin skot að meðaltali í 25 leikjum. Tryggvi er því gríðarlegt efni sem gæti náð ansi langt á sínum ferli en ekki eru nema þrjú ár síðan hann hóf að leika körfubolta.
Tryggvi Snær staðfesti við Karfan.is að hann myndi leika erlendis á næsta tímabili en ekki væri ljóst hvar. Einhver orðaskipti hefðu átt sér stað en ekkert sem hægt væri að segja frá samkvæmt Tryggva. Eins áður hefur komið fram sér Tryggvi evrópu sem líklegri áfangastað en hann vildi samt ekki útiloka háskólaboltann þegar Karfan bar upp möguleikana.
Þessi framtíðar miðherji Íslands var orðaður við Valencia í efstu deild á spáni fyrir síðasta tímabil og einnig voru sögusagnir um að hann myndi fara út um áramót. Tryggvi ákvað á endanum að klára eitt tímabil á Íslandi sem hann gerði með glæsibrag. Hann sagði hinsvegar í samtali við Karfan.is rétt fyrir áramót: „Draumurinn er jú auðvitað að fara erlendis og spila körfubolta sem atvinnumaður og gera alla sem hafa hjálpað mér og stutt mig stolta. Ég sé fyrir mér að fara þar sem ég spila við betri leikmenn en ég spilaði síðast.“