spot_img
HomeFréttirTryggði sigurinn með flautukörfu í framlengingu

Tryggði sigurinn með flautukörfu í framlengingu

10:30

Brandon Roy sýndi hvað í honum býr í nótt þegar hans menn í Portland Trailblazers lögðu Houston að velli, 101-99, í framlengdum leik. Hann skoraði sigurkörfuna með þriggja stiga skoti um leið og lokaflautið gall.

Þá vann Orlando góðan heimasigur á Philadelphia, 98-88.

Leikur Portland og Houston var afar eftirminnilegur, en hann var hnífjafn allan tímann. Portland virtist þó hafa leikinn í hendi sér í fjórða leikhluta, en góður kafli hjá Tracy McGrady kom þeim aftur inn í leikinn og staðan var 90-90 þegar venjulegum leiktíma lauk.

Framlengingin var ekki við hæfi hjartveikra því liðin tvö skoruðu úr þremur sóknum á síðustu 1,9 sekúndum leiksins. Roy breytti stöðunni fyrst í 98-96, en braut svo klaufalega á Yao Ming sem skoraði og fékk víti sem hann skoraði einnig úr. Staðan var því 98-99 fyrir Houston og 0,8 sek á klukkunni.

Roy fékk færi á að bæta fyrir klaufaskapinn í vörninni og gerði það með glæsilegu 3ja stiga skoti. Þó einhver gæti sett spurningarmerki við varnarleik Houston var þetta ótrúlegt skot og höllin lék á reiðiskjálfi. Smellið hér til að sjá skotið.

Roy kláraði leikinn með 17 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar, en LaMarcus Aldridge átti einnig góðan leik fyrir Blazers og var með 27 stig og 9 fráköst.

McGrady var yfirburðamaður í liði Houston með 30 stig, 7 fráköst og 8 stoðsendingar.

Sjá tölfræði úr leikjum næturinnar

ÞJ

Fréttir
- Auglýsing -