spot_img
HomeFréttirTröllatvenna Gartrell vó þungt í DHL

Tröllatvenna Gartrell vó þungt í DHL

Njarðvíkurkonur unnu í kvöld afar mikilvægan sigur á KR í Domino´s deild kvenna er liðin áttust við í DHL Höllinni. Nikitta Gartrell splæsti í tröllatvennu með 31 stig og 17 fráköst og náðu Njarðvíkingar að brúa bilið um tvö stig á Grindavík og Hamar sem eru í 6.-7. sæti með 12 stig en Njarðvík nú áfram á botninum en þó með 8 stig. Fyrir jólafrí höfðu Njarðvíkingar tapað tíu leikjum í röð en nú eftir áramót hefur Agnar Mar Gunnarsson stýrt liðinu til tveggja sigra og einn tapleikur litið dagsins ljós svo breytingarnar sem gerðar voru á Ljónynjunum virðast meltast vel hjá leikmönnum liðsins. Lokatölur í DHL í kvöld voru 62-72 Njarðvík í vil.
 
Liðin fylgdust þétt að í fyrsta leikhluta, Guðlaug Björt Júlíusdóttir var beittust Njarðvíkinga á upphafsmínútunum. Ebone Henry sá um flestar framkvæmdir á sóknarenda KR en staðan var 15-13 KR í vil eftir upphafsleikhlutann. Skotnýting liðanna var í takt við kuldabola utandyra, Njarðvík 7-0 í þristum og KR 3-0. KR lék án Bjargar Guðrúnar sem er nefbrotin og þá var Helga Einarsdóttir í borgaralegum klæðum á tréverki KR.
 
Röndóttar opnuðu annan leikhluta 6-0 og komust í 21-13 en hægt og bítandi fór að lifna yfir Nikita Gartrell í liði Njarðvíkinga og minnkaði hún muninn í 27-24 með fyrstu og einu þriggja stiga körfu fyrri hálfleiksins. Gartrell mokaði einnig inn tveimur villum á Henry í liði KR síðustu tvær mínúturnar svo Henry sem var með 14 stig í hálfleik mátti ekki við miklu í síðari hálfleiknum. KR hafði yfirhöndina í leikhléi 32-28 þar sem Gartrell var með 11 stig og 11 fráköst í liði Njarðvíkinga en Henry með 14 stig og 6 fráköst hjá KR.
 
Utan við þriggja stiga línuna var lítt að frétta í leikhéi, liðin tóku samtals 16 þriggja stiga skot fyrstu 20 mínúturnar og rétt klesstu niður einum, ekki ýkja heillandi sú nýting.
 
Botnlið Njarðvíkur mætti vel stemmt inn í síðari hálfleikinn á meðan röndóttar virtust hafa skilið sína stemmningu eftir inni í búningsherbergi. Njarðvíkingar tóku á 7-0 rás í upphafi síðari hálfleiks og KR-ingar líflausir með öllu. Á fyrstu átta mínútum þriðja leikhluta fékk KR aðeins dæmda á sig eina liðsvillu svo heimakonur voru varla að nenna því að sinna varnarleiknum. Ásdís Vala Freysdóttir nýtti færið og kom Njarðvík í 39-48 með þrist en KR-ingar áttu lokaorðið og bitu smá frá sér með 5-0 syrpu undir lok leikhlutans og staðan því 44-48 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
 
Nikitta fór fyrir Njarðvíkingum í fjórða leikhluta og þá átti Ásdís Vala Freysdóttir einnig góða spretti. Framan af fjórða leikhluta voru fá teikn á lofti um að KR ætlaði sér nokkuð úr leiknum en heimakonur tóku smá rispu og minnkuðu muninn í 60-66 en nær komust þær ekki og grænklæddir gestirnir kláruðu verkið 62-72.
 
 
Mynd/ [email protected] – Nikitta Gartrell fór fyrir Njarðvíkingum í kvöld með 31 stig, 17 fráköst og 6 stoðsendingar.
  
Fréttir
- Auglýsing -