spot_img
HomeFréttirTroðfull DHL-höll þegar KR sendi Keflavík í frí

Troðfull DHL-höll þegar KR sendi Keflavík í frí

 
KR mætir Stjörnunni í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn í Iceland Express deild karla. KR skellti Keflavík í kvöld 105-89 í oddaviðureign liðanna frammi fyrir troðfullri DHL-Höll. Brynjar Þór Björnsson og Marcus Walker fóru fyrir KR í kvöld en saman gerðu kapparnir 61 af 105 stigum KR í leiknum. Thomas Sanders gerði 26 stig í liði Keflavíkur en hann var rekinn í sturtu þegar skammt var til leiksloka.
Keflvíkingar lentu 2-0 undir í þessu einvígi en með tveimur sigrum í röð þar sem framlengja varð báða leikina jöfnuðu Keflvíkingar einvígið og fyrir vikið var beðið með óþreygju eftir oddaleik kvöldsins. Sveiflurnar voru þónokkrar í kvöld en KR settist í bílstjórasætið undir lok annars leikhluta og notuðu það sem eftir lifði leiks til að stýra sigrinum örugglega í höfn.
 
Skarphéðinn Freyr Ingason var kominn í byrjunarlið KR í kvöld á meðan Finnur Magnússon byrjaði á bekknum. Keflvíkingar voru mættir með svæðisvörnina sína frá fyrstu mínútu og Thomas Sanders var að finna fjölina í upphafi leiks. Ciric kom gestunum í 8-13 með þrist en heimamenn tóku á rás og jöfnuðu 17-17 með þrist frá Skarphéðni. Eftir þennan þrist skildu leiðir í fyrsta leikhluta. Thomas Sanders tók völdin í sínar hendur og skoraði eftir hentisemi.
 
Fyrsti leikhlutinn var hraður og skemmtilegur en vesturbæingum var vafalítið ekki skemmt yfir hriplekri vörn sinni. Keflvíkingar leiddu 23-30 að loknum fyrsta hluta og óvanalegt að sjá röndótta fá á sig 30 stig fyrstu tíu mínúturnar á heimavelli.
 
Magnús Þór Gunnarsson minnti á sig er hann opnaði annan leikhluta fyrir Keflavík með þriggja stiga körfu og staðan 23-33 gestunum í vil. Röndóttum var hætt að lítast á blikuna svo þeir ákváðu að taka þátt, og það af engum smá krafti!

Brynjar Þór gerði 34 stig í liði KR í kvöld 
KR byrjaði á því að jafna metin í 33-33 og síðar í 39-39 og þegar tæpar fimm mínútur voru til hálfleiks fékk Sigurður Gunnar Þorsteinsson sína þriðju villu í liði Keflavíkur. Hér eftir tóku heimamenn öll völd, Sanders var hættur að bíta frá sér í liði gestanna, Walker bauð upp á 5-0 rispu hjá KR sem leiddu 48-42 og síðar 55-42 í hálfleik. Vörn heimamanna var allt önnur og miklu betri en í öðrum leikhluta, vörnin sem fékk á sig 30 stig í fyrsta leikhluta hélt Keflavík í 12 stigum í öðrum hluta og KR-ingar með vænlega stöðu í leikhléi.
 
Brynjar Þór Björnsson og Marcus Walker voru báðir með 15 stig í hálfleik í liði KR en hjá Keflavík var Thomas Sanders með 16 stig og Andrija Ciric 12. KR-ingar fóru langt á grimmdinni í fráköstunum í fyrri hálfleik, tóku 28 á meðan gestirnir úr Keflavík voru aðeins með 17.
 
Brynjar Þór Björnsson fór mikinn í þriðja leikhluta, skaut KR í 62-46 og skömmu síðar komu tveir slíkir í jafn mörgum sóknum og KR komið í 76-56, munurinn orðinn 20 stig og kjaftfull DHL-höllin kunni að meta þessa mögnuðu rispu sinna manna sem leiddu 79-63 eftir þriðja leikhluta. Brynjar Þór var kominn með 29 stig hjá KR eftir þrjá leikhluta, stigin hafði hann skorað eftir 28 mínútna leik, stór dagur hjá kappanum.
 
Magnús Þór Gunnarsson opnaði fjórða leikhluta með þrist fyrir Keflavík, 79-66 en það var alveg sama hvað gestirnir reyndu, KR átti alltaf svör og þó staðan væri 94-80 fyrir KR þegar þrjár mínútur voru til leiksloka var tilfinningin sú að Keflavík myndi aldrei ná að brúa bilið. Sú varð raunin og áður en lokaflautið gall fékk Thomas Sanders að fjúka út úr húsi. Brynjar Þór Björnsson braut harkalega á Sanders sem svaraði fyrir sig með því að grýta Brynjari í gólfið, hann var rekinn út fyrir vikið en kvaddi ekki leikvöllinn fyrr en hann hafði stuggað aðeins við öðrum dómara leiksins.
 
Lokatölur reyndust svo 105-89 eins og áður greinir og KR er komið í úrslit og leikur um Íslandsmeistaratitilinn gegn Stjörnunni. Úrslitaeinvígið hefst á mánudag og á KR heimaleikjaréttinn í seríunni, fyrsti leikur verður samkvæmt því í DHL-Höllinni.
 
Heildarskor:
 
KR: Brynjar Þór Björnsson 34/7 fráköst, Marcus Walker 27, Pavel Ermolinskij 18/13 fráköst/7 stoðsendingar, Skarphéðinn Freyr Ingason 11, Hreggviður Magnússon 7, Jón Orri Kristjánsson 3, Finnur Atli Magnússon 2/5 fráköst, Fannar Ólafsson 2/12 fráköst, Matthías Orri Sigurðarson 1, Páll Fannar Helgason 0, Ólafur Már Ægisson 0, Ágúst Angantýsson 0.
 
Keflavík: Thomas Sanders 26/7 fráköst, Andrija Ciric 20/6 fráköst, Hörður Axel Vilhjálmsson 13/7 stoðsendingar, Gunnar Einarsson 12, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 10/9 fráköst, Magnús Þór Gunnarsson 8, Almar Stefán Guðbrandsson 0, Þröstur Leó Jóhannsson 0, Jón Nordal Hafsteinsson 0, Halldór Örn Halldórsson 0, Gunnar H. Stefánsson 0, Elentínus Margeirsson 0.
 
Byrjunarliðin:
 
KR: Pavel Ermolinskij, Marcus Walker, Brynjar Þór Björnsson, Skarphéðinn Freyr Ingason og Fannar Ólafsson.
 
Keflavík: Hörður Axel Vilhjálmsson, Thomas Sanders, Gunnar Einarsson, Andrija Ciric og Sigurður Gunnar Þorsteinsson.
 
Dómarar leiksins: Sigmundur Már Herbertsson, Rögnvaldur Hreiðarsson
Eftirlitsmaður: Pétur Hrafn Sigurðsson
Áhorfendur: Um 1800
 
Ljósmyndir/ Tomasz Kolodziejski [email protected]  
 
Umfjöllun/ Jón Björn Ólafsson[email protected]  

Fréttir
- Auglýsing -