spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild kvennaTopplið Keflavíkur sigraði örugglega í Stykkishólmi

Topplið Keflavíkur sigraði örugglega í Stykkishólmi

Keflavík lagði Snæfell í Stykkishólmi í kvöld í Subway deild kvenna, 67-87.

Eftir leikinn sem áður er Keflavík í efsta sæti deildarinnar með tólf sigra og eitt tap það sem af er tímabili á meðan að Snæfell er í níunda sæti deildarinnar með einn sigur og þrettán tapaða leiki.

Það voru heimakonur í Snæfell sem byrjuðu leik kvöldsins betur og leiddu þær með 6 stigum að fyrsta leikhluta loknum, 23-17. Keflavík nær þó góðum tökum á leiknum undir lok fyrri hálfleiksins og eru komnar tveimur stigum yfir þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 42-44.

Með sterkum varnarleik nær Keflavík svo að láta kné fylgja kviði í upphafi seinni hálfleiksins og eru þær komnar með forystu sína í tveggja stafa tölu fyrir lokaleikhlutann, 53-63. Í fjórða leikhlutanum sjá heimakonur svo aldrei til sólar. Áfram nær Keflavík að hafa góð tök á leiknum, bæta við forskotið og sigra leikinn að lokum með 20 stigum, 67-87.

Atkvæðamestar í liði heimakvenna í leiknum voru Shawnta Shaw með 16 stig, 10 fráköst, 6 stoðsendingar og Eva Rupnik með 14 stig og 6 fráköst.

Fyrir gestina úr Keflavík var Daniela Wallen atkvæðamest með 20 stig, 14 fráköst, 5 stoðsendingar og 4 stolna bolta. Henni næst var Birna Valgerður Benónýsdóttir með 16 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar.

Snæfell á leik næst komandi þriðjudag 16. janúar gegn Íslandsmeisturum Vals í Origo höllinni, en Keflavík leikur degi seinna miðvikudag 17. janúar heima í Blue höllinni gegn Grindavík.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Bæring Nói)

Fréttir
- Auglýsing -