Íslandsmeistarar KR eru komnir á topp Iceland Express deildar karla eftir 97-91 sigur á Snæfell í DHL-Höllinni. KR hafði frumkvæðið frá upphafi til enda en gestirnir voru sjaldan langt undan, munurinn lá einfaldlega í Tommy Johnson sem var sjóðheitur í liði KR og smellti niður 10 þristum í 16 tilraunum. Johnson lauk leik með 39 stig og virðist vera búinn að finna fjölina eftir brösugt upphaf á leiktíðinni með meisturum KR. Hlynur Bæringsson var atkvæðamestur í liði gestanna með 27 stig og 13 fráköst.
Snæfellingar mættu í DHL-Höllina í kvöld án þeirra Pálma Freys Sigurgeirssonar og Sigurðar Þorvaldssonar og ljóst að róðurinn yrði þungur. Íslandsmeistarar KR komust í 17-12 snemma leiks og þá tók Ingi Þór leikhlé fyrir sína menn úr Hólminum. Lítið breyttist við leikhléið, í það minnsta batnaði vörn Snæfellinga lítt og heimamenn leiddu 25-19 eftir fyrsta leikhluta þar sem Tommy Johnson var líflegur en hann átti heldur betur eftir að láta að sér kveða í leiknum.
Í upphafi annars leikhluta skiptu Snæfellingar í svæðisvörn en þegar skammt var liðið á annan leikhlutann vantaði bara að miskunnsamur áhorfandi hefði hringt í vælubílinn. Bæði lið grenjuðu líkt og pelabörn um villur sem þau vildu fá og varð þeim töluverð minnkun af þessu háttalagi. Kannski að nálægðin við jólahátíðina hafi vakið barnið svona sterkt í leikmönnum en undirritaður var næstum því búinn að smella I-podinum í gang til að verja eyrun gegn þessari hávaðamengun.
Á endanum hætti grátkórinn og Semaj Inge stal boltanum, brunaði upp völlinn og tróð með mögnuðum tilþrifum og kom KR í 36-22. Þá tóku gestirnir leikhlé en gleymdu örugglega að ræða varnarleikinn því heimamenn áttu dágóðan slatta af opnum þriggja stiga skotum sem þeir nýttu vel. Tommy Johnson kom KR í 39-24 með þrist en skömmu síðar náði Sean Burton, bandaríski leikstjórnandi Snæfells loks að koma sér á blað og minnkaði muninn í 41-26. Fram að þessu hafði ein heitasta þriggja stiga skytta landsins skorað ansi hátt á Kelvin-kvarðanum.
Gestirnir úr Hólminum áttu þokkalegan lokasprett og náðu að minnka muninn í 11 stig, 50-39, en Brynjar Þór Björnsson átti lokaorðið fyrir KR í fyrri hálfleik með þriggja stiga körfu og því leiddi KR 53-39 í hálfleik.
Tommy Johnson var stigahæstur hjá KR með 15 stig í hálfleik og Brynjar Þór með 13 en í liði gestanna voru þeir Hlynur Bæringsson og Jón Ólafur Jónsson báðir með 11 stig hvor.
Hólmarar hertu tökin í vörninni og virtust til alls líklegir í þriðja leikhluta en þeir máttu ekki við Tommy Johnson sem setti niður sex þrista í leikhlutanum og hélt KR við efnið. Þökk sé Tommy leiddu KR-ingar 76-62 fyrir fjórða leikhluta en Hólmarar héldu áfram að berjast.
Sean Burton minnti á sig fyrir utan þriggja stiga línuna og minnkaði muninn í 81-66 en um miðbik leikhlutans kom nokkuð fát á gestina sem voru alls ekki langt undan. Snæfellingar reyndu of mikið af ótímabærum þriggja stiga skotum og hávaxið lið KR frákastaði vel. Að lokum fór svo að KR hafði öruggan 97-91 sigur þrátt fyrir margar fínar rispur hjá Snæfell.
KR lýkur því árinu með sigri og þannig góðu veganesti fyrir Kínaheimsókn sína en Vesturbæingar leggja af stað á morgun til Kína þar sem þeir munu mæta Beijing Aoshan í vináttuleik. Snaggaralegt ferðalag framundan hjá Íslandsmeisturnum sem koma síðan aftur til Íslands korter í jól.
Tommy Johnson var eins og fyrr greinir alger yfirburðamaður á vellinum í kvöld með 39 stig og 30 þeirra komu úr þriggja stiga skotum. Johnson var auk þess með 3 fráköst og 2 stolna bolta. Fannar Ólafsson og Brynjar Þór Björnsson voru einnig liprir, Fannar með 14 stig og 5 fráköst en Brynjar með 13 stig, 8 fráköst og 4 stoðsendingar.
Án Sigurðar Þorvaldssonar og Pálma Freys er nokkuð stór bútur sem vantar í Hólmara en þeir börðust engu að síður af krafti í kvöld en uppskáru ekki fyrir erfiði sitt. Það tók Sean Burton heilar 15 mínútur að komast á blað og hefði hann þurft að vera illviðráðanlegur strax frá fyrstu mínútu ef Snæfell ætlaði að velgja KR undir uggum.
Hlynur Bæringsson gerði 27 stig og tók 13 fráköst í liði Snæfells og næstur honum kom Burton með 22 stig og 12 stoðsendingar. Jón Ólafur Jónsson gerði 18 stig og Emil Jóhannsson barðist vel og lauk leik með 13 stig.