spot_img
HomeFréttirTómas Þórður aftur til Stjörnunnar

Tómas Þórður aftur til Stjörnunnar

Tómas Þórður Hilmarsson er kominn aftur til Íslands og mun leika með Stjörnunni út tímabilið. Tómas fór í sumar til Francis Marion háskólans sem leikur í 2. deild bandaríska háskólaboltans en hefur nú snúið heim og mun leika með Stjörnunni. Þetta staðfesti Hrafn Kristjánsson í Podcasti Karfan.is þessa vikuna. 

 

Hann lék fjóra leiki með Marion og var með 1 stig og 2 fráköst að meðaltali í leik. Tómas lék 25 leiki með Stjörnunni á síðasta tímabili og var byrjunarliðsmaður í þeim flestum. Hann var með 6,5 stig og 7 fráköst að meðaltali í leik á síðasta tímabili með Stjörnunni. 

 

Hrafn Kristjánsson sagði frá þessu í Podcasti Karfan.is sem kemur út í dag. Þar sagði hann meðal annars að Tómas Þórður muni leika með Stjörnunni á þessu tímabili og því næsta. Þar sem Tómas var enn skráður leikmaður Stjörnunnar í Bandaríkjunum getur hann spilað með liðinu gegn KR.

 

„Ég býst við að hann verði í 12 manna leikmannahópi. Hann verður líklega ekki kominn inní allt sem við erum að gera til þess að fá þungahlutverk. Hann verður allavega á bekknum og ég mun vita af honum þar, hann getur nýst okkur.“ sagði Hrafn.

 

Tómas þekkir vel til liðsins og hefur verið í góðri æfingu hjá Marion Francis og hefur Hrafn því litlar áhyggjur á forminu á kauða.

 

„Hann er í dúndur formi, kannski búinn að léttast full mikið. Þarf ekki að hafa áhyggjur af því að spila hann í form.“ sagði Hrafn svo að lokum. 

 

Stjarnan tekur á móti KR í síðustu umferð Dominos deildar karla fyrir jólafrí á fimmtudagskvöldið klukkan 20:00 en leikurinn fer fram í Garðabæ.

 

 

 

Fréttir
- Auglýsing -