spot_img
HomeFréttirTómas hetja Fjölnismanna

Tómas hetja Fjölnismanna

Fjölnir hélt uppteknum hætti og tryggði sér sinn þriðja sigur í deildinni í fjórum leikjum með flautukörfu frá Tómasi Heiðar Tómassyni gegn Tindastól í Dalhúsum í kvöld.  Leikurinn var jafn og spennandi en lokamínúturnar voru hreint út sagt svakalegar.  George Valentine hefði getað komið Tindastól yfir af vítalínunni þegar 1 sekúnda var eftir en tókst aðeins að jafna leikinn.  Þá kom það í hlut Tómasar að taka lokaskot leiksins sem svoleiðis söng í netinu við mikinn fögnuð áhorfenda og Fjölnismanna.  75-72 voru lokatölur leiksins.  
 

Stigahæstur í liði Fjölnis var Árni Ragnarsson sem átti virkilega góðan leik í kvöld, hann skoraði 20 stig og gaf 7 stoðsendingar.  Næstur á blað var Tómas Heiðar Tómasson með 15 stig, 8 stoðsendingar og 5 fráköst.  George Valentine var stigahæstur í liði Tindastóls með 23 stig og 9 fráköst en næstur var Helgi Freyr Magnússon með 15 stig.  

 

Það var jafnt á liðunum fyrstu mínútur leiksins, liðin skiptust á að koma botlanum ofaní og hvorugu liðinu tókst að taka af skarið.  Það var hins vegar um miðjan fyrsta leikhluta sem Fjölnir tók á rás, þeir breyttu stöðunni úr 7-7 í 17-9 og nýttu þar hraða sinn virkilega vel ásamt góðum varnarleik.  Árni Ragnarsson var þá búinn að skora 8 stig í leiknum.  George Valentine hélt Tindastól inní leiknum með flottum sóknarleik en hann átti meðal annars alvöru “put-back” troðslu þar sem hann reif boltan úr höndunum á Jóni Sverrissyni og tróð yfri hann, virkilega glæsilega gert.  Valentine var þá með 10 af 15 stigum gestanna.  Fjölni hélt þessu 8 stiga forskoti út leikhlutan en það var Björgvin Hafþór Ríkarðsson sem sá til þess með því að setja þrist(spjalið ofaní, sem undirritaðan grunar að hann hafi ekki kallað) sekúndubrotum áður en fyrsta leikhluta lauk, 26-18.  

 

 

Það var allt annar bragur á leiknum í upphafi annars leikhluta.  Tindastóll mættu vel stemmdir inná völlinn og voru búnir að minnka muninn niður í 3 stig strax eftir tvær mínútur, 29-26.  Sá munur var orðinn 1 stig um mínútu síðar og gestirnir höfðu þó fengið tækifæri til þess að breyta stöðunni enn frekar sem þeir nýttu ekki.  Þegar fjórar mínútur voru eftir af öðrum leikhluta höfðu heimamenn aðeins skorað 6 stig og þar skiptust stigin jöfn, þrjú sig á hvorn erlendan leikmann liðsins.  Tindastóll var að spila flottan varnarleik og þvinga heimamenn í erfið og ótímabær skot.  Þeim tókst þó ekki að stíga skrefið til fulls og taka forskotið í leiknum, 32-31.  Tindastóll jafnaði svo metin með þrist þegar ein og hálf mínúta var eftir af fyrri hálfleik, 36-36.  Helgi Rafn Viggóson  kom svo gestunum svo yfir í fyrsta skiptið síðan í upphafi leiks í stöðunni 36-38.  Fjölnir átti síðustu stig fyrri hálfleiks og liðin fóru því hnífjöfn til klefa, 38-38.  

 

Stigahæstur í liði Fjölnis í fyrri hálfleiks var Árni Ragnarsson með 12 stig en næstu menn voru Tómas Tómasson með 6 stig og Sylverster Spicer með 5 stig og 5 fráköst.  Í liði Tindastóls var George Valentine stigahæstur með 14 stig en næstir komu Helgi Freyr með 9 stig og Sigtryggur Arnar Björnsson með 7 stig.  

 

Fjölnismenn hafa lengi verið með skemmtilega uppákomur á sínum heimaleikjum og þeir buðu uppá sína útgáfu af miðjuskotinu í fyrsta leikhléi eftir hálfleik.  Þá fengu þrír fræknir áhorfendur að spreyta sig og einn þeira setti skotið niður af miðju við mikinn fögnuð áhorfenda. 

 

Liðin skiptust á að leiða leikinn í upphafi seinni háflleiks, Fjölnismenn náðu 5 stiga forskoti í stöðunni 48-43 en Tindastóll snéri því við og voru komnir yfir í stöðunni 49-51.  Það virtust allir leikmenn Tindastóls vera sjóðandi heitir fyrir utan þriggja í þriðja leikhluta en Fjölnir tók leikhlé þegar forskot gestanna var komið í 5 stig, 51-56, eftir þrist frá reynsluboltanum Friðriki Hreinssyni.  Svæðisvörn gestanna var að gera Fjölnismönnum lífið leitt og flest stig Fjölnis á þessum kafla í leiknum kom úr hröðum sóknum.  Tómas Tómasson tók svo til sinna ráða þegar um það bil ein mínúta var eftir af þriðja leikhluta og setti tvo þrista í röð og kom Fjölni aftur yfir í stöðunni 59-58.  Það reyndust vera seinustu stig leikhlutans og því voru það heimamenn sem leiddu með einu stigi þegar einn leikhluti var eftir.  

 

Eftir hnífjafnar upphafsmínútur í fjórða leikhluta tók Tindastóll af skarið og nýtti sér klaufaleg mistök Fjölnismanna vel.  Þegar leikhlutinn var að verða hálfnaður tók Hjalti leikhlé fyrir Fjölni í stöðunni 63-67 en Fjölnir hafði þá hent boltanum klaufalega frá sér í tvígang.  Jón Sverrisson jafnaði af vítalínunni um mínútu síðar 67-67 og leikurinn var orðinn æsispennandi.  

 

 

Þegar tvær og háfl mínúta var eftir af leiknum var Tindastóll þremur stigum yfir 68-71.  Fjölnismenn voru sendir á línuna við hvert tækifærr og ljóst að Tindastóll ætlaði ekki að gefa þeim neitt.  Það reyndist góð ákvörðun því heimamenn voru ekki að fara vel með vítaskotin sín á lokakaflanumen bæði Spicer og Árni klikkuðu á öðru af tveimur skotunum.  Jón Sverrisson jafnaði þó leikinn fyrir Fjölni þegar rétt rúmlega ein mínúta var eftir með laglegu up and under sniðskoti, 71-71.  Fjölnismenn misnotuðu tækifæri til þess að komast yfir þegar um það bil hálf mínúta var eftir af leiknum og Tindastóll brunaði í sókn.  Þeir voru hársbreidd frá því að missa frá sér boltann þegar 16 sekúndur voru eftir en dómararnir dæmdu uppkast og Tindastóll átti boltan.  Tindastólsmenn reyndu einhverra hluta vegna að gefa viðstöðulausa alley oop sendingu á George Valentine sem Árni Ragnarsson komst inní, honum tókst svo líka að verja sniðskot Friðriks Hreinssonar sekúndu seinna.  Fjölnismenn fóru því í sókn og Árni fékk boltan undir körfunni, þar var brotið á honum þar sem hann nýtti seinna skotið, 72-71 og Bárður tók leikhlé fyrir Tindastól með 3 sekúndur á klukkunni.  George Valentine fékk þá boltan efst í teignum, keyrði á körfuna og var sendur á línuna.  Þar tókst honum aðeins að setja seinna vítið og með 1,1 sekúndur eftir á klukkunni tóku Fjölnismenn því leiklé, staðan 72-72.  Þeir settu upp kerfi fyrir Tómas Tómasson sem gekk svo fullkomnlega upp að boltinn söng í netinu við mikinn fögnuð heimamanna.  Tómas fékk því allt fjölnisliðið og gott betur í hrúgu ofaná sig eftir að hafa tryggt heimamönnum tvö mikilvæg stig.  

 

[email protected]

 

Mynd: Björn Ingvarsson – Fagnaðarlæti Fjölnismanna eftir flautukörfu Tómasar sem tryggði þeim sigurinn

 

Fréttir
- Auglýsing -