spot_img
HomeSubway deildinSubway deild karlaTölfræðimolar - Tindastóll setti tvö met í leik 4

Tölfræðimolar – Tindastóll setti tvö met í leik 4

Oddaleikur varð raunin eins og á síðustu leiktíð og þá er ekki úr vegi að taka stöðuna á tölfræðinni í einvíginu fyrir veisluna í kvöld. Til upprifjunar er síðastu stöðutöku fyrir úrslitaviðureignina að finna hér.

Tindastóll setti tvö met í úrslitaviðureignum þegar liðið skoraði 38 stig í fyrsta leikhluta í leik 4 á mánudaginn var. Stólarnir voru 15/22 í skotum utan af velli og þar af 7/11 í þriggja stiga skotum. Liðið skoraði 38 stig í 19 sóknum sem gefur nákvæmlega tvö stig í hverri sókn eða ORtg upp á slétta 200. Sóknarnýting (Floor%) Stólanna var 80,9% í fyrsta leikhluta og virk skotnýting (eFG%) var 84,1% og skilvirk skotnýting (TrueShooting%) var 84,9%. Hreint ótrúleg frammistaða hjá Tindastólsliðinu.

Aldrei áður hefur verið skorað jafn mikið í fyrsta leikhluta í úrslitaviðureign. Næst á eftir koma Snæfellingar árið 2010 þegar liðið skoraði 37 stig á Keflavík í fyrsta leikhluta oddaleiks liðanna í úrslitunum 2010. Tindastóll skoraði hins vegar aðeins 31 stig í hinum þremur leikhlutunum á mánudaginn. Ekkert lið í sögu deildarinnar hefur afrekað það skora meira í fyrsta fjórðungi en öllum þremur sem á eftir fylgja – hvort sem litið er til deildarkeppni eða úrslitakeppni.

Tindastóll er að skjóta 37,8 þriggja stiga skottilraunum að meðaltali í leik í þessu úrslitaeinvígi og 53,4% heildarfjölda skottilrauna liðsins koma frá þriggja stiga línunni. Aðeins einu sinni hefur lið skotið fleiri þriggja stiga skottilraunum að meðaltali í úrslitaeinvígi áður og það var Tindastóll 2022 með 38,4 skottilraunir og 58,0% hlutfall. Í þriðja sæti eru svo Tindastóll 2018 með 36,5 og 39,5% hlutfall. Ekkert af þessum liðum náði hins vegar 30% nýtingu utan þriggja stiga línunnar og því náði ekkert þeirra 0,9 stigum per skottilraun.

Uppsafnaður stigamunur í einvíginu er á þá leið að Tindastóll vinnur fyrsta fjórðung með 13 stigum samanlagt en hinir þrír eru eign Vals með +4, +7 og +16. Stigamuninn er hægt að sjá myndrænt á myndinni hér að neðan þar sem bláa súlan er Tindastóll en rauðu súlurnar eru Valur.

Valur hefur gefið mest eftir í öðrum leikhluta frá því sem var í fjórðungs- og undanúrslitunum en liðið skorar 3,1 stigum minna að meðaltali í öðrum leikhluta í úrslitunum en áður. Munurinn er mestur í seinni hálfleik hjá Tindastóli þar sem liðið skorar 5,3 stigum og 5,8 stigum minna í þriðja og fjórða leikhluta.

Í fjórþáttagreiningunni má sjá mestan mun á skotnýtingu Tindastóls sem var 58,9% eFG% í fyrstu tveimur umferðum úrslitakeppninnar en er nú 48,3%. Skotnýting Vals hins vegar batnar í úrslitaviðureigninni úr 52,0% í 54,4% – þvert á venju. Skotnýting dettur sögulega niður um tæpt prósentustig frá fyrstu tveimur umferðum úrslitakeppninnar til úrslitaviðureignar. Sóknarskilvirkni dettur hressilega niður hjá báðum liðum sem er ekki óeðlilegt þegar tvö bestu varnarlið deildarinnar eigast við. Myndin hér að neðan sýnir fjórþáttagreininguna í úrslitaviðureigninni en meðaltölin eru úr allri úrslitakeppninni.

Skotdreifing liðanna hefur breyst aðeins frá fyrstu tveimur umferðunum en þó á ólíkan máta. Tindastóll hefur aukið vægi þriggja stiga skottilrauna en Valur aukið vægi skottilrauna við hringinn. Teigurinn er vígi Vals hvernig sem á það er litið og á það við á báðum endum vallarinns. Valur hefur skorað 40,5 stig (47,0% af heildarstigum) að meðaltali í teignum á móti 29,5 (35,8% af heildarstigum) frá Tindastóli í úrslitaeinvíginu. Ástæðan er líklegast varnarleikur Vals í teignum. Tindastóll er að nýta færin við hringinn jafn vel og í fyrri umferðunum eða 62,1% sem skilar þeim 1,24 stigum per skottilraun. Vandamálið er að skottilraunirnar eru bara hlutfallslega færri. Tindastóll fékk 25,3 skottilraunir við hringinn í deildarkeppninni. Þær urðu 22,4 í fyrstu tveimur umferðum úrslitakeppninnar og svo 21,8 það sem af er úrslitaeinvíginu. Hlutfall skottilrauna við hringinn var 35,8% í deild, 32,8% í fyrstu tveimur umferðunum og nú 30,9% í úrslitaeinvíginu. Tindastóll hefur lagt mikla áherslu á þriggja stiga skotin í þessu einvígi en hlutfall þeirra er orðið 53,5% af sóknarleik liðsins, frá 51,0% áður. Nýtingin hefur hins vegar hrapað mikið í úrslitaeinvíginu og er nú undir 30% og gefur aðeins 0,89 stig per skottilraun.

Tindastóli hefur ekki tekist að nýta þriggja stiga körfurnar til að opna betur á tækifæri við hringinn. Í þeim leikhlutum þar sem Tindastóll er að skjóta yfir 33% fyrir utan þriggja stiga línuna er þeim einungis að takast að ná 0,6 fleiri skottilraunum per 10 mínútur við hringinn en þegar þeir skjóta undir 33%. Þar að auki nýta þeir færin verr þegar þeir eru að skjóta betur fyrir utan eða 46,5% og 50,6% þegar þeir hitta verr fyrir utan.

Hraði leiks skiptir máli fyrir bæði lið. Tindastóll þarf að keyra hann upp en Valur þarf að drepa hann niður. Net Rating er mismunur á sóknarskilvirkni og varnarskilvirkni og gefa jákvæð gildi í skyn að lið skori meira per 100 sóknir en þau fá á sig. Tindastóll opnar leikina alltaf sterkt í fyrsta leikhluta með Net Rating upp á +21,7 þegar leikhraði (Pace) er að meðaltali 82 sóknir. Síðan fer Valur að sækja á með +8,4 í öðrum hluta (Pace 80,5); +2,9 í þriðja hluta (Pace 82,0) og +20,7 í fjórða hluta (Pace 76,5) en meðalleikhraði í öðrum, þriðja og fjórða hluta í þessum fjórum leikjum er 79,7. Takið eftir því að Net Rating hjá Val er minna í þriðja hluta en hinum tveimur þegar leikhraðinn er að meðaltali 82 sóknir. Tapaðir boltar vega þungt í leikhraðanum í þriðja hluta en Valur tapar að meðaltali 4,8 boltum þá og Tindastóll 4,5.

Smellið á myndina til að fá stærri og skýrari mynd

Inn/út tölfræðin hefur breyst umtalsvert frá því fyrir lokaúrslitin. Sóknarskilvirkni Tindastóls dregst mikið niður þegar Keyshawn Woods er utan vallar og fer úr 107,1 stigi per 100 sóknir niður í 84,4. Mismunargildið á Pétur Rúnar og Sigtrygg Arnar eru mögulega ýkt þar sem þeir hafa spilað um vel yfir 90% hvor af þeim 160 mínútum sem í boði eru fyrir einn leikmann í fjórum leikjum. Þær uppstillingar sem spila með þá utan vallar eru mögulega með of lítið mengi mínútna til að gildin teljist marktæk. Það sem mesta athygli vekur er að sóknarskilvirkni Stólanna tekur stökk upp á við þegar Sigtryggur Arnar sest á bekkinn en hann er að skjóta 16/63 utan af velli í úrslitaeinvíginu samkvæmt tölfræðikerfinu InStat. Fimm af þessum 63 skotum eða 7,9% eru óáreitt (e. uncontested). Óáreitt skot Sigtryggs Arnars voru 16,9% af heild í deildinni og fyrstu tveimur umferðunum þannig að óhætt er að segja að hans sé vel gætt af Valsmönnum í þessu einvígi. Mengið með hann utan vallar er hins vegar lítið eins og áður sagði og því mögulega ekki marktækt.

Hjá Val er Ozren Pavlovic með hæsta inn/út gildið. Hjá Kristófer Acox og Kára Jónssyni gildir líklega það sama og nefnt var um Pétur og Sigtrygg Arnar hér að ofan. Mengi mínútna með þá utan vallar er aðeins um 15% af mögulegum mínútum og því tæplega marktækt. Frank Aron Booker hefur heldur betur bætt sitt inn/út gildi en það var -6,3 fyrir einvígið en er nú +5,6 gegn Tindastóli.

Þeir sem vilja fræðast um sögulega tölfræði oddaleikja í efstu deild karla er bent á þessa grein sem birt var á Karfan.is fyrir oddaleik liðanna í síðasta ári.

Fréttir
- Auglýsing -