spot_img
HomeSubway deildinSubway deild karlaTölfræðimolar - Spila lið verr í desember?

Tölfræðimolar – Spila lið verr í desember?

Ég heyrði um daginn umræður í ónefndu hlaðvarpi sem fjallar um körfubolta hvort lið spili oftar en ekki verr í desember en aðra mánuði á árinu. Mér fannst þetta áhugaverður punktur þar sem álagið í desembermánuði gæti mögulega haft einhver áhrif á þá fjölmörgu leikmenn í Subwaydeildinni sem eiga fjölskyldur eða jafnvel aukið álag í vinnu hjá öðrum.

Að því sögðu ákvað ég að taka tvo tölfræðiþætti sem að mínu mati skipta miklu máli í frammistöðu liða og bera þá saman milli desembermánaðar og allra annarra mánaða sem efstu deildir karla og kvenna eru spilaðar í. Þessir tölfræðiþættir eru virk skotnýting (eFG%) og sóknarskilvirkni (ORtg eða stigaskor í 100 sóknum).

Eins og svo margt annað þá gengur þetta í bylgjum. Í efstu deild karla munaði mest milli desember og annarra mánaða árið 1991 þegar liðin skutu 6,9 prósentustigum verr í desember en aðra mánuði ársins. Í kvennaboltanum var það 2014 sem mestu munaði í skotnýtingu liða í desember eða 3,2 prósentustigum minna en aðra mánuði. Ef við horfum í hina áttina þá hefur desembermánuður 1998 verið einstaklega góður fyrir lið í efstu deildum karla og kvenna þar sem karlaliðin skutu 3,5 prósentustigum betur en aðra mánuði en kvennaliðin skutu hvorki meira né minna en 7,9 prósentustigum betur þennan desembermánuðinn. Hvað sóknarskilvirknina varðar er það sama árið hjá körlunum þar sem mesti neikvæði munurinn er, 1991 með -8,4 milli mánaðanna, en kvennamegin er það 2011 þar sem skilvirknin datt niður um -5,3 stig í desember samanborið við aðra mánuði. Hámörkin eru svo sama árið og í skotnýtingunni í desember 1998 þegar skilvirknin karlamegin var +6,1 en +12,2 hjá konunum. Sveiflurnar má svo sjá á meðfylgjandi myndum en vakin er athygli á því að engir leikir voru spilaðir í desember 2021 vegna Covid-19 heimsfaraldursins. Neikvæð gildi sýna verri frammistöðu í desember og jákvæð betri. Tölfræði í úrslitakeppni er ekki talin með. Tölfræði fyrir 1989 til 1996 vantar kvennamegin þar sem ekki var byrjað að skrá tölfræði í efstu deild kvenna fyrr en haustið 1996.

Sögulega er hins vegar ekki markverður munur á desember til samanburðar við aðra mánuði ársins bæði hvað skotnýtingu og sóknarskilvirkni varðar. Hjá körlum er munurinn -0,3 prósentustig í skotnýtingu og -0,02 í sóknarskilvirkni. Hjá konum er munurinn enginn í skotnýtingu en sögulega er sóknarskilvirkni 0,41 stigi betri í desember en í öðrum mánuðum.

Af þessu má draga þá ályktun að jólastressið í desember hafi engin áhrif á frammistöðu liða í efstu deildum karla og kvenna – í sögulegu samhengi að minnsta kosti.

Til viðbótar má svo sjá hvernig liðin eru að spila á þessari leiktíð í desember samanborið við hina tvo mánuðina sem liðnir eru af leiktíðinni. Karlamegin eru Njarðvík, ÍR og Tindastóll á inngjöfinni í desember á meðan Haukar, Höttur og Valur hafa gefið eftir. Kvennamegin eru hins vegar Valur og ÍR sem hafa gefið í en Grindavík gefið örlítið eftir. Vakin er athygli á þeirri einkennilegu stöðu sem komin er upp hjá Keflavík sem er að skjóta verr í desember en samt sem áður að spila skilvirkari sóknarleik. Hið gagnstæða er uppi á tengingnum hjá Fjölni þar sem þær eru að skjóta betur en gefa eftir í skilvirkninni. Ástæðan er sú að Fjölnir er að spila 9 sóknum hraðar í desember en fyrr á leiktíðinni en Keflavík 4 sóknum hægar. Þumalputtareglan er sú að það er auðveldara að auka skilvirkni í hægum leik en hröðum.

Fréttir
- Auglýsing -