spot_img
HomeSubway deildinSubway deild kvennaTölfræðimolar - skotnýting aldrei verið betri

Tölfræðimolar – skotnýting aldrei verið betri

Tökum saman það sem upp úr stendur í lok deildarkeppninnar í Subwaydeild kvenna.

Deildin var mjög tvískipt í vetur og eiginlega tvær ólíkar deildir. Efri helmingurinn samanstendur af liðunum sem eru í úrslitakeppninni og hafa vegna meðalsætistölu upp á 3,0 til 3,6 skv. fjórþáttagreiningunni. Liðin fyrir neðan eru með vegna meðalsætistölu upp á 4,8 til 6,8. Meðaltal 3,3 á efri hlutanum og 5,8 á neðri hlutanum sem gefur vísbendingu um hversu ójöfn deildin var á þessari leiktíð. Því til stuðnings er sú staðreynd að algildi meðaltals stigamunar í öllum leikjum í deildarkeppninni var 19,0 og hefur ekki verið svo hátt frá því 2007. Meðaltal síðustu 10 ára fram að þessari deildarkeppni er 14,5.

Skotnýting í deildinni hefur aldrei verið betri ef tekið er tillit til þróaðra mælikvarða á skotnýtingu. Venjuleg skotnýting (FG%) er 39,1% sem er með því hærra sem skráð hefur verið en þó ekki það hæsta. Merkilegt nokk þá er skráð 39,5% skotnýting 1996 þegar tölfræðiskráning í efstu deild kvenna hefst. Virk skotnýting (eFG% – Effective Field Goal %) sem tekur áhrif þriggja stiga skota með í jöfnuna var 44,8% sem er hæsta gildið sem skráð hefur verið frá upphafi. Sömu sögu er að segja um skilvirka skotnýtingu (TS% – True Shooting) sem tekur tillit til vítaskota og hversu mörgum stigum skotin skila – þá er hún 48,4% og það hæsta sem mælt hefur verið.

Þessu til stuðnings er sú staðreynd að af þeim 20 liðum sem hæsta eFG% hafa náð á einni leiktíð frá upphafi eru þrjú þeirra úr nýafstaðinni deildarkeppni: Keflavík, Valur og Njarðvík. Sama á við um TS%. Keflavík er með fjórðu bestu eFG% skotnýtingu frá upphafi með slétt 50,0% og einnig fjórðu bestu TS% skotnýtingu með 53,3%.

KARFAN.IS-1110x180---KOMIN-Í-BÍÓ-AIR.jpg

Skilvirkni er með hærra móti í deildinni á þessu ári eða 91,4 stig per 100 sóknir en það er enn 1,1 stigi undir því hæsta sem var skráð árið 2019. Þrjú af tíu skilvirkustu sóknarliðum allra tíma koma úr nýafstaðinni deildarkeppni: Valur, Haukar og Keflavík. Hlutfall þriggja stiga skota var 38,5% af heildinni er það í takt við þá þróun sem hefur verið á deildinni undanfarin 10 ár. Meðaltal síðustu 10 ára er 35,2% en meðaltalið frá 1996 til 2013 er 24,5%.

Með talningu á vítaskotum í “gangur leiks” (play-by-play) flipanum á KKÍ skráði ég og flokkaði vítaskot eftir því í hvaða röð þau voru tekin. Úr þeirri könnun kom í ljós að leikmenn Subwaydeildar kvenna nýta seinna skot sitt af tveimur vítaskotum betur en hið fyrra. Munurinn er hins vegar ekki mikill. Alls fara 74,1% af seinna vítaskotinu niður en 68,3% af því fyrra. Leikmenn heimaliðs nýta seinna skotið betur (74,5%) en gestirnir (73,7%) en gestirnir hins vegar nýta fyrra skotið betur (69,5%) en heimaliðið (67,0%). Sjá mynd að neðan. Mismun í gildum skottilrauna milli fyrra vítis og seinna vítis má að öllum líkindum rekja til rangrar skráningar í kerfið.

Subwaydeild kvenna – deildarkeppni 2023

Uppsafnaður stigamunur Keflavíkur í þriðja leikhluta er 181 stig og 146 stig í fjórða leikhluta. Uppsafnaður stigamunur liðsins í öllum fyrri hálfleik er 137 stig og í seinni hálfleik því 327 stig. Uppsafnaður stigamunur liðsins í þriðja leikhluta er sá mesti sem skráður hefur verið allt aftur til 2001 þegar fyrst var spilað í fjórðungum. Á hinum endanum er hins vegar Breiðablik með mestan uppsafnaðan neikvæða stigamun frá upphafi í þriðja leikhluta með -205. Þriðji leikhluti er afar mikilvægur ef marka má þá staðreynd að af þeim tíu liðum með mestan uppsafnaðan stigamun í þriðja leikhluta frá upphafi eru sjö sem hafa endað sem Íslandsmeistarar – átta ef Keflavík fer alla leið. Og enn meira af liði Keflavíkur, þá er uppsafnaður stigamunur í öllum leikjum liðsins í deildarkeppninni (464 stig) sá ellefti mesti frá upphafi.

Allt frá því 2018 hefur KKÍ haldið utan um “seinni áhlaups stig” eða “second chance points” á frummálinu. Einn mælikvarði á varnarleik liða er hversu vel þau bregðast við því að andstæðingur nái sóknarfrákasti og hefur yfirritaður haldið utan um tölfræði sem mælir nákvæmlega þetta – seinna áhlaups stig andstæðings á móti hverju sóknarfrákasti andstæðings. Sögulegt meðaltal deildarinnar aftur til 2018 er 0,711 seinna áhlaups stig á móti hverju sóknarfrákasti. Valur og Keflavík eru með tvö lægstu gildi sem skráð hafa verið frá upphafi í þessum tölfræðiþætti sem snýr að varnarleik: 0,534 hjá Val og 0,573 hjá Keflavík. Það segir okkur að þegar andstæðingar Vals og Keflavíkur ná sóknarfrákasti tekst þeim að skora eitt stig í aðeins annað hvert skiptið. Góð vísbending um styrk varnarleiks beggja liða.

Fréttir
- Auglýsing -