spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild karlaTölfræðimolar - Pétur Rúnar mikilvægastur fyrir Stólana og Valsarar að hitna í...

Tölfræðimolar – Pétur Rúnar mikilvægastur fyrir Stólana og Valsarar að hitna í skotunum

Valur og Tindastóll munu mætast í fyrsta leik úrslitaviðureignarinnar í kvöld kl. 19:15. Þá kíkjum við aðeins á tölurnar og sjáum hvernig þessi lið passa saman áður en veislan hefst.

Fjórþáttagreining
Liðin passa ágætlega saman með tilliti til fjórþáttagreiningar. Tindastóll hefur skotið óheyrilega vel í úrslitakeppninni eða 58,9% eFG% og skorar 119,4 stig per 100 sóknir. Hlutfall sóknarfrákasta Tindastóls er ekki hátt eða 25% sem er 3 prósentustigum undir meðaltali úrslitakeppninnar. Valur hefur hins vegar mikla sérstöðu þar með 35,9% og langt yfir meðaltalinu. Sóknarskilvirkni Vals er 4 stigum undir Tindastóli en varnarskilvirkni liðanna er sambærileg. Leikmenn Tindastóls eru iðnir við að sækja stig á línuna með hlutfall víta hitt á móti skottilraunum utan af velli í 24,7% (meðaltal deildarinnar 21,7%) og hlutfall andstæðinga þeirra aðeins 17,8%.

Skotnýting
Tindastóll hefur minna leitað inn í teiginn það sem af er úrslitakeppni með aðeins 32,8% skottilrauna sinna við hringinn en ná þar hins vegar 1,24 stigi per skottilraun. Meirihluti skottilrauna Stólanna hafa komið frá þriggja stiga línunni eða 51% og með ágætis árangri eða 1,25 stig per skottilraun. Valur er nær meðaltalinu í skottilraunum við hringinn eða með hlutfallið 39,8% og ná 1,20 stigum fyrir hverja skottilraun. Þriggja stiga skotið hefur ekki verið að detta fyrir Val í úrslitakeppninni með 31,8% nýtingu eða 0,96 stig per skottilraun. Nýting liðsins í síðustu þremur leikjum var 44,3% sem gaf 1,33 stig per skottilraun. Styrkur Vals liggur í innri varnarleik liðsins þar sem þeir hafa haldið andstæðingum sínum í 25 skottilraunum að meðaltali í leik (meðaltal deildar 28,2) eða 37,1% hlutfall (meðaltal deildar 39,1%) og 1,09 stigum per skottilraun (meðaltal deildar 1,21).

Leikmenn
Pétur Rúnar Birgisson, Taiwo Badmus og Sigtryggur Arnar Björnsson hafa bestu inn/út tölfræðina fyrir Tindastól sem mælir mismuninn á sóknarskilvirkni og varnarskilvirkni liðsins þegar leikmaður er annars vegar inni á vellinum og hins vegar þegar hann er utan vallar. Sóknarskilvirkni Tindastóls er best þegar Badmus er innan vallar eða 129 stig per 100 sóknir en mesta athygli vekur Net Rating liðsins þegar Pétur Rúnar er utan vallar eða -7,2 stig per 100 sóknir. Keyshawn Woods er mikilvægur fyrir sóknarleik Tindastóls með 120,4 stig per 100 sóknir með hann innan vallar en skilvirkni varnarleiks Stólanna er hrópandi 88,9 þegar hann er utan vallar.

Mikilvægi Callum Lawson er ótvírætt fyrir Val þar sem liðið er með nettó 9,1 stig per 100 sóknir á meðan hann er innan vallar en sóknarleikurinn hrynur hins vegar með hann utan vallar niður í 91,9 og nettó -9,7. Liðið skorar af mestri skilvirkni á meðan Kristófer Acox er inni á vellinum eða 121,1 stig per 100 sóknir. Kári Jónsson hefur átt erfitt uppdráttar í þessari úrslitakeppni eins og tölurnar sýna en það er samt óumdeilt að frammistaða hans inni á vellinum getur skilið milli feigs og ófeigs fyrir Val hvað úrslit leikja varðar eins og sást í síðustu leikjum liðsins í undanúrslitunum.

Skilvirkustu liðssamsetningarnar
Til að skoða bestu eða skilvirkustu liðssamsetningar beggja liða er litið til þeirra uppstillinga sem hafa spilað saman meira en tíu mínútur samtals í úrslitakeppninni. Þar eru þekkt andlit hjá báðum liðum fyrir utan það að Davis Geks er með sæti í skilvirkustu uppstillingu Tindastóls en ekki Keyshawn Woods. Uppstilling Tindastóls er framúrskarandi sóknarlega með 116,5 stig per 100 sóknir en uppstilling Vals er gríðarlega skilvirk varnarlega með 81,8 stig andstæðings per 100 sóknir.

Annað
Bæði lið hafa fjórum sinnum komist í úrslitaviðureignina frá því úrslitakeppnin hófst. Tindastóll hefur aldrei unnið fyrsta leik úrslitaviðureignarinnar en Valur hefur einu sinni unnið hann og það var einmitt á móti Tindastóli í fyrra. Tindastóll hefur ekki tapað á heimavelli í úrslitakeppni síðan 18. maí 2021.

Tindastólsmenn eru framúrskarandi í að nýta sér tapaða bolta andstæðinga en liðið hefur skorað að meðaltali 1,17 stig eftir hvern tapaðan bolta andstæðings. Töluvert yfir meðaltali úrslitakeppninnar sem er 1,01. Þeir eru aftur á móti afar slakir í að takmarka stigaskorun andstæðinga sinna eftir sóknarfrákast en þeir skora 1,22 stig á Tindastólsvörnina eftir hvert sóknarfrákast. Meðaltal úrslitakeppninnar er 0,90 stig. Valsmenn hanga hins vegar við meðaltalið í þessari tölfræði.

Fréttir
- Auglýsing -