spot_img
HomeSubway deildinSubway deild karlaTölfræðimolar - Hvaða lið hafa bætt sig mest í seinni umferðinni?

Tölfræðimolar – Hvaða lið hafa bætt sig mest í seinni umferðinni?

Vorboðinn ljúfi, úrslitakeppnin þokast nær með hverjum deginum. Þá er mikilvægt að henda í greiningu á því hvaða lið hafa spilað betur eða verr á seinni hluta leiktíðarinnar. Til þess munum við bera saman árangur liða í fyrri umferðinni og svo í seinni umferðinni samkvæmt fjórþáttagreiningunni og fleiri þáttum sem henni fylgja.

Á meðfylgjandi mynd sjáum við hvernig liðum í Subwaydeild karla hefur vegnað á seinni hluta leiktíðarinnar samanborið við fyrstu 11 leiki deildarkeppninnar. Rauð gildi eru neikvæð (hvort sem þau eru í plús eða mínus), græn gildi eru jákvæð en hvít eða dauflituð gildi eru nær þeim breytingum sem deildin í heild hefur tekið. Til dæmis þá hefur virk skotnýting (eFG%) í deildinni batnað um 1,7 prósentustig og því eru gildi ÍR og Þórs Þorlákshafnar nánast hvít þrátt fyrir að vera betri en á fyrri hluta leiktíðarinnar. Sóknarskilvirkni í deildinni er að aukast um 2,8 stig per 100 sóknir og sóknarnýting batnar um 1,1 prósentustig.

Smellið á myndina til að fá stærri og skýrari mynd

Það er engum blöðum um það að fletta að Þór Þorlákshöfn hefur bætt sig hvað mest allra liða í Subwaydeild karla. Liðið er 8 sætum ofar í fjórþáttagreiningunni á seinni hluta leiktíðar samanborið við fyrri hlutann. Þórsarar hafa hægt mest allra liða á sínum leik á seinni hlutanum og spila nú tæplega þremur sóknum færra en í fyrri umferðinni. Það hefur jákvæð áhrif á bæði sóknar- og varnarskilvirkni liðsins en það munar einnig um það að liðið er að skora 5 stigum meira en áður og fá á sig rúmlega 8 stigum minna. Varnarleikurinn hefur batnað töluvert en það sést best á skotnýtingu andstæðinga liðsins sem er 6,2 prósentustigum lakari en áður.

Njarðvík hefur bætt sóknarleikinn umtalsvert og skorar nú 14,2 stig per 100 sóknir meira en áður. Sóknarnýtingin hefur einnig bæst um 5,6 prósentustig og nú eru Njarðvíkingar að nýta 54,3% sókna sinna til að skora stig.

Sóknarleikur Keflavíkur er í lamasessi af þessu að dæma en Keflvíkingar eru að skora tæplega 8 stigum per 100 sóknir minna en þeir gerðu á fyrri hluta leiktíðarinnar. Hlutfall tapaðra bolta er 1,8 prósentustigum hærra þrátt fyrir að meðaltal deildarinnar sé að lækka. Keflavík er einnig í sýnilegum vandræðum með að komast á línuna og nýta þau tækifæri þar sem bjóðast, samanber vítahlutfall liðsins (FT/FGA). Liðið tekur bæði færri vítaskot á seinni hlutanum (24,2 vs 22,3) og nýtir þau verr (81,4% vs 71,0%).

Á hinum endanum eru það svo Höttur og Breiðablik sem hafa slakað hvað mest á í vörn samanborið við önnur lið í deildinni. Höttur fær á sig 9,6 stig per 100 sóknir meira en áður og Breiðablik 11,2. Skotnýting andstæðinga skiptir þar mestu máli en andstæðingar Breiðabliks skjóta 5,8 prósentustigum betur en áður og andstæðingar Hattar 7,5 prósentustigum betur.

Í Subwaydeild kvenna eru umtalsvert minni breytingar á seinni hluta leiktíðarinnar en hjá körlunum. Sóknarskilvirkni bætist um hálft stig per 100 sóknir og leikhraði hefur dregist saman um tæpalega eina sókn.

Smellið á myndina til að fá stærri og skýrari mynd

Keflavík hafa haldið ótrauðar sínu striki, sitja enn í efsta sæti deildarinnar samkvæmt fjórþáttagreiningu og hafa bara bætt leik sinn ef eitthvað er. Skora nú 4,1 stigi meira per 100 sóknir en áður og fá á sig 2,7 minna en áður. Njarðvíkurkonur hafa bætt varnarleikinn svo um munar. Þær fá á sig 10,7 stigum per 100 sóknir minna en áður. Valsarar hafa einnig bætt varnarleikinn töluvert en þær fá á sig 5,6 stigum per 100 sóknir minna en áður þrátt fyrir að hafa aukið leikhraðann um 2,9 sóknir í leik. Fjölniskonur eiga í töluverðum vandræðum með fráköstin en andstæðingar þeirra eru að taka hlutfallslega tæplega 5 prósentustigum meira af sóknarfráköstum en áður auk þess sem þeirra eigin hlutfall sóknarfrákasta hefur lækkað um 8,3 prósentustig.

Fjórþáttagreining Subwaydeildar karla 2022-2023
Fjórþáttagreining Subwaydeildar kvenna 2022-2023

Fréttir
- Auglýsing -