spot_img
HomeFréttirTölfræði fyrir oddaleikinn

Tölfræði fyrir oddaleikinn

Körfuboltaunnendur voru bænheyrðir á mánudag þegar Njarðvíkingar sigruðu Grindvíkinga í fjórða leik liðanna í undanúrslitum Dominosdeildarinnar og tryggðu sér þannig oddaleik um sæti í úrslitunum gegn KR. Viðureign Grindvíkinga og Njarðvíkinga hefur verið mjög kaflaskipt þar sem Njarðvíkingar unnu fyrsta leikinn á heimavelli Grindvíkinga en virtust svo hafa misst trúna á sjálfa sig þegar heim var komið. Tveir sigrar Grindvíkinga í röð og útlit fyrir að Njarðvíkingar væru á leiðinni í frí þegar að fjórða leiknum kom.  
 
Serían hefur verið mjög varnarmiðuð þar sem meðalstigaskor í leikjunum er rúmlega 78 stig. Í leiknum á mánudaginn héldu Njarðvíkingar Grindvíkingum í 68 stigum og 57 skotum utan að velli. Lið sem skorar annars 85,3 stig í leik í deildinni og tekur að jafnaði 77,5 skot utan að velli í leik. Ótrúlegt afrek svo ekki sé meira sagt. Leikhraðinn er í takt við meðaltal Njarðvíkinga en þónokkuð lægri en hjá Grindavík. Njarðvíkingar hafa tekið færri þriggja stiga skot að meðaltali í seríunni en í deildinni en Grindvíkingar auka við sig. 
 
Skotnýting beggja liða hefur verið upp og niður og þónokkuð lakari hjá Njarðvíkingum. Þristarnir hafa ekki verið að detta eins mikið fyrir Njarðvík og fókusinn mun meiri á teiginn en áður. 48,1% skota Njarðvíkur komu úr teignum í deildinni en 56,0% í undanúrslitunum. Þeir hafa þó nýtt skotin í teignum mun verr en í deildinni eða 49,0% á móti 57,0% áður. Njarðvíkingar hafa verið lítið fyrir stutt stökkskot eða mid-range skot eins og þau kallast á ensku. 15,6% skota Njarðvíkinga komu af því færi í deildinni en hlutfallið hrapar niður í 12,3% í undanúrslitunum. Njarðvíkingar hafa aðeins tekið 34 skot af þessu færi í öllum fjórum leikjunum á meðan Grindvíkingar hafa tekið rúmlega tvöfalt fleiri eða 74.
 
Grindvíkingar hafa tekið mun fleiri skot af stuttu færi (mid-range) í undanúrslitunum heldur en í deildinni, en þá á kostnað teigsins. Grindavík nýtir hins vegar skotin í teignum mun betur en Njarðvík eða 53,2%. 
 
Barátta þeirra Tracy Smith og Sigurðar Þorsteinssonar í teignum hefur verið grimm. Tracy hefur skorað meira í teignum með 62 stig á móti 42, en Sigurður er að nýta sín skot aðeins betur með 56,8% nýtingu á móti 55,4% nýtingu Tracy. Þriðji leikurinn fór illa með tölfræði Tracy þar sem hann skaut 3/11 inni í teignum eða 27,3%.
 
Öll skilvirkni er betri Grindavíkur megin, hvort sem það snýr að skotnýtingu, sóknarnýtingu eða stigum per sókn. 
 
Hér að neðan sjáum við þróun á skilvirkni liðanna eftir leikjum í seríunni.
 
 
 
Hraðinn var Njarðvík hliðhollur í fyrsta leiknum en síðan þá hefur hann hrapað niður sem hentar Grindavík betur. Það var þó ekki að hjálpa þeim í fjórða leiknum þar sem leikhraðinn var sá allra lægsti en Njarðvík sigraði þann leik með 9 stigum.  Grænu súlurnar sýna þá leiki sem Njarðvík vann og þann stigamun sem var á liðunum þá en gulu súlurnar sýna leikina sem Grindavík vann. Línan hins vegar sýnir leikhraðann í leikjunum.
 
 
Að lokum má hér sjá samantekt á tölfræði liðanna. Efri myndin sýnir tölfræði úr deildarkeppninni en sú neðri sýnir tölfræði úr undanúrslitunum.
 
 
Fréttir
- Auglýsing -