Leikur allra leikja í Dominosdeildinni verður spilaður í kvöld í DHL höllinni. Þá mætast tvö bestu lið deildarinnar um svo gott sem hreinan úrslitaleik um deildarmeistaratitilinn. Keflavík þarf ekki bara að vinna leikinn heldur þurfa þeir að vinna hann með 12 stiga mun til að vinna innbirðisviðureignina, því fyrri leikurinn í TM-höllinni fór 70-81 fyrir KR.
Samkvæmt Four-Factors greiningu eru KR-ingar besta lið deildarinnar en Keflavík í því þriðja. KR er besta sóknarliðið með Keflavík strax á eftir sér en KR-ingar eru í öðru sæti varnarliða á eftir Grindavík og Keflavík í því fjórða á eftir Njarðvík.
Keflavík er í 11. sæti allra liða í Dominosdeildinni með hlutfall sóknarfrákasta andstæðinga sem vekur furðu verandi með tröllið Michael Craion í teignum til að ryksuga allt laust upp. KR-ingar eru í topp 6 sætunum í öllum þáttum Four-Factors.
KR er skilvirkasta sóknarlið deildarinnar með 52,4% sóknarnýtingu en Keflavík í þriðja sæti með 51,0%. Hvað vörn varðar er það Keflavík sem leiðir með 43,5% nýtingu sókna andstæðinga og KR rétt á eftir með 44,0%.
Bæði lið eru nánast hnífjöfn í leikhraða eða KR með 84,0 sóknir að meðaltali og Keflavík með 83,8 sóknir að meðaltali. Bæði lið spila þó hraðar á heimavelli en úti. Leikhraðinn í leik KR og Keflavíkur í TM-höllinni var um 77 sóknir en tapleikur KR-inga gegn Grindavík í DHL-höllinni var um 86 sóknir. Keflavík spilar mun hraðar í sínum sigurleikjum eða 84,6 en KR aftur á móti hægar eða 83,4.
KR tekur yfir 40 fráköst að meðaltali í leik og þar af eru 11 í sókn. KR tapaði hins vegar baráttunni um sóknarfráköstin í fyrri leiknum gegn Kef um 7 alls. Í samanburði á fráköstum þessara liða eftir fjórðungum er KR með fleiri í 1. og 4. en umtalsvert minna í 2. og 4. Í fjórða munar 1,1 frákasti að meðaltali milli þeirra.
Keflavík er frábært sóknarfrákastalið og mun það verða þeirra helsti styrkur gegn KR. Keflavík tekur um 14 sóknarfráköst í leik og er með fleiri en KR í öllum fjórðungum. Hvað varðar varnarfráköst er hins vegar aðra sögu að segja en KR leiðir alla fjórðunga þar.
Keflvíkingar stela alltaf fleiri boltum en KR-ingar en það vekur hins vegar athygli að KR tapar að meðaltali 7,7 boltum í seinni hálfleik á móti 6,2 í fyrri.
Hvað varðar stigaskor er KR með yfirhöndina í 2. og 4. hluta og skorar 24,4 stig að meðaltali í hvorum fjórðungi fyrir sig. Keflvíkingar hins vegar slaka á í þessum leikhlutum og munar samtals um 5,5 stigum á þeim í 2. og 4. hluta.
Í leiknum í TM-höllinni í nóvember byrjuðu Keflvíkingar mjög sterkt og náðu 4 stiga forystu strax í fyrst hluta og náðu að halda forystunni í 3 stigum í hálfleik. Seinni hálfleikur var hins vegar algerlega eign KR-inga og þá sérstaklega þriðji hluti sem fór 17-26 fyrir gestunum.
Liðin gætu eiginlega ekki verið mikið jafnari hvað flesta tölfræðiþætti varðar. Þetta mun allt velta á dagsforminu og undirbúningnum hjá þjálfurum liðanna. Það verður forvitnilegt að sjá hvort KR-ingum takist aftur að þvinga Keflvíkinga út úr svæðisvörninni sem hefur virkað svo vel fyrir þá, líkt og gerðist í seinni hálfleik leiksins í nóvember.
Varnarleikur verður mjög áberandi í þessum leik og kæmi mér ekki á óvart ef nokkrar óíþróttamannslegar villur og tæknivillur verði flautaðar inn. Hvorugt lið mun vilja gefa eftir þennan leik. Bæði lið eru komin með nýja leikmenn í hópinn. KR-ingar með öflugan erlendan leikmann en Keflvíkingar hafa endurheimt ríkjandi þriggja stiga kóng deildarinnar, Magnús Gunnarsson, sem hefur verið sjóðandi heitur undanfarið.



