Teitur Örlygsson snýr aftur í kvöld í Ásgarð en líkt og flestir vita þjálfaði hann lið Stjörnumanna frá árinu 2009 og sagði starfi sínu lausu eftir síðasta tímabil. Frá því að Teitur hóf störf sín hjá Stjörnunni með sigri gegn Grindavík í janúar 2009 hefur mikið vatn runnið til sjávar en óhætt er að segja að feril Teits í Ásgarði hafi verið farsæll, tveir bikarmeistaratitlar og liðið fór í fyrsta skipti í sögunni í úrslitarimmuna um þann stóra gegn KR. Silfurskeið þeirra Stjörnumann hefur boðað komu sína í Ásgarð í kvöld og því von á gríðarlegri stemmningu.
“Leikurinn er auðvitað mikilvægur fyrir bæði liðin, Njarðvík og Stjarnan eru í þessum pakka og hver sigur/tap getur fært þig fram eða aftur um nokkur sæti. Ég á von á skemmtilegum leik, þessi lið hafa spilað marga hörkuleiki á undanförnum árum, verið svipuð af getu og líklegast verður bara framhald á því.” sagði Teitur í viðtali við Karfan.is nú fyrir stundu.
En hvað þarf til að sigra Stjörnuna í Ásgarði? “Við verðum að ná toppleik til að sigra í Ásgarði, Stjarnan er eitt af afar fáum liðum sem styrktist í mannskap fyrir þetta tímabil og væntingar því miklar í Garðabæ heyri ég. Við verðum að vera klárir frá fyrstu mínútu og berjast fyrir hvern annann í 40 mín.”
Samband Teitis og Stjörnumanna var með eindæmum gott og þar á bæ er óhætt að segja að Teitur sé í miklum metum. Silfurskeiðin sem fyrr segir hefur boðað sig til leiks í kvöld en á Teitur þá von á einhverjum söngvum eða glósum frá þeim?
“Hef ekki áhyggjur af Silfurskeiðinni, topp menn sem ég hef fengið að njóta síðsutu ár. þeir eiga mína virðingu eins og allt fólk sem styður liðið sitt í gegnum súrt og sætt” sagði Teitur að lokum.
Leikur Stjörnunar og UMFN er í kvöld kl 19:15 í Ásgarði.
Mynd: Teitur og sonur hans Aron í góðgerðaleik UMFN hér um árið.



