spot_img
HomeFréttirTöggur Garðbæinga sendu þá í undanúrslit

Töggur Garðbæinga sendu þá í undanúrslit

„Þetta var líklega sá stærsti á ferlinum held ég,“ sagði Marvin Valdimarsson um þristinn sinn sem sendi Keflavík í sumarfrí í kvöld. Stjarnan barði sér aftur leið inn í leikinn á lokamínútunum eftir að hafa grafið sér ansi djúpa holu. Keflvíkingar leiddu með eins stigs mun en Stjörnumenn áttu boltann. Allir vissu að Shouse myndi fá hann og líklegast taka lokaskotið en það kom í hlut Marvins sem ísaði leikinn 93-94. Stjörnumenn eru komnir í undanúrslit og mæta þar deildarmeisturum KR eftir 3-0 seríu gegn Keflavík.
 
„Þetta var helvíti stórt skot, Shouse átti að taka lokaskotið en boltinn datt þarna fyrir mig og ég skaut auðvitað og fann að strokan var góð,“ sagði Marvin í samtali við Karfan.is eftir leik. Starfinn var ærinn þetta kvöldið því Junior Hairston var andlega fjarverandi og bauð upp á sinn versta leik í seríunni, í raun bara hættulegur framvindu mála fyrir Stjörnuna. Keflvíkingar virtust ekkert á þeim buxunum að láta eftir þá forystu sem þeir höfðu byggt upp en Stjarnan gafst ekki upp, Shouse hreinlega leyfði það ekki en kappinn á þessa seríu skuldlausa.
 
Það var ljóst snemma að menn myndu selja sig dýrt og eflaust margir sem neituðu að trúa því að Keflavík gæti tapað þremur leikjum í röð. Garðbæingar byrjuðu betur en heimamenn voru fljótir að ná áttum og staðan 23-23 eftir fyrsta leikhluta. Keflvíkingar fönguðu stemmninguna og settu 29 stig á Stjörnuna í öðrum leikhluta, Þröstur og Magnús voru að setja´ann fyrir utan og Craion sem bakvörður væri stal hverjum boltanum á fætur öðrum. Keflvíkingar leiddu í hálfleik 52-44.
 
Í þriðja leikhluta var sagan sú að Stjörnumenn voru alltaf að nálgast en þegar þeir voru við það að jafna stakk Keflavík af á nýjan leik. Magnús Þór Gunnarsson átti nokkra vel tímasetta þrista og Keflvíkingar leiddu 77-69 fyrir fjórða og síðasta hluta.
 
Við höfum líkast til ekki séð það sem gerðist í fjórða leikhluta oft til Keflavíkurliðsins en heimamenn höfðu komið sér upp 90-76 forystu þegar fimm mínútur voru til leiksloka. Hér voru allir og þá bókstaflega allir búnir að gera ráð fyrir að fara á fjórða leikinn í Garðabæ.
 
Hendið inn einum þrjóskum Shouse, þeirri staðreynd að „Hack a Shaq“ meðferð á Craion fékk að vera óáreitt af dómurum kvöldsins þar sem þessi magnaði leikmaður fékk aðeins þrjú vítaskot, hauslaus Hairston og saga þessara liða. Það hlaut eitthvað að gefa eftir.
 
Þegar tvær mínútur voru eftir fær Jón Sverrisson sína fimmtu villu og varð frá að víkja að því er virtist fyrir engar eða litlar sakir og var kappinn allt annað en sáttur. Skömmu síðar í frákastabaráttu verður hrúgald eitt á gólfinu og stimpingar sem lykta með því að Craion og Fannar Helgason fá báðir óíþróttamannslegar villur og þar var komin fimmta villan hjá Craion.
 
Keflvíkingum var fyrirmunað að skora, voru að verja forystu og eftir brotthvarf Craion urðu menn ragir við að taka af skarið. Shouse minnkaði muninn í 92-91 með þrist og um leið og Keflvíkingar tóku inn boltann brutu Stjörnumenn á Arnari Frey. Arnar setti seinna vítið og kom Keflavík í 93-91. Teitur Örlygsson tók leikhlé fyrir Garðbæinga og það vissu allir að Shouse myndi fá boltann, það bara vissu ekki allir að Marvin myndi enda með hann galopinn og smellti niður skotinu, kom Stjörnunni í 93-94 með eina sekúndu eftir á klukkunni.
 
Tilraun Keflvíkinga til að stela sigrinum var heiðarleg þar sem Þröstur Leó reyndi að blaka boltanum ofaní en hann dansaði af hringnum og Stjörnumenn fögnuðu sigri.
 
Mögnuð sería að baki hjá Shouse sem setti 37 stig í kvöld, tók 6 fráköst og gaf 10 stoðsendingar. Dagur Kár Jónsson átti einnig afbragðsgóðan leik með 17 stig og Marvin með 19 og 3 mikilvægustu stig leiksins auðvitað. Hjá Keflavík hefur Craion skorað meira en hann var með 18 stig og naut ekki sannmælis í kvöld hjá dómurum leiksins en það dæmi gengur ekki upp að leikmaður eins og Craion leiki í 37 mínútur og taki þrjú víti. Craion var einnig með 11 fráköst og 8 stolna bolta. Darrel Lewis gerði 20 stig í kvöld og tók 7 fráköst og Magnús Þór Gunnarsson bætti við 16 stigum.
 
 
Mynd/ [email protected] – Fannar Helgason fagnar hér vel og innilega í Keflavík í kvöld.
 
  
Fréttir
- Auglýsing -