spot_img
HomeFréttirTöframaðurinn Teodosic stýrði sýningunni

Töframaðurinn Teodosic stýrði sýningunni

Serbar voru rétt í þessu að vinna öflugan 91-72 sigur á Tyrkjum á EuroBasket í Berlín. Töframaðurinn Milos Teodosic leikmaður CSKA Moskvu í Rússlandi gerði 17 stig í leiknum og stýrði sýningunni með 13 stoðsendingar í þokkabót. Serbar hafa nú unnið alla fjóra leiki sína og á kristaltæru að þeir eru á leið til Frakkland.

Serbar voru ekkert að tvínóna við hlutina heldur settu 30 stig á Tyrkja í fyrsta leikhluta og leiddu 30-14 að honum loknum. Tyrkir tóku aðeins við sér í öðrum leikhluta sem fór 21-23 fyrir Serba og leiddu þeir 35-53 í hálfleik. Miroslav Raduljica var atkvæðamestur Serba í hálfleik með 14 stig en Cedi Osman var með 10 hjá Tyrkjum.

Tyrkir unnu þriðja leikhluta 24-18 en Serbum tókst alltaf að halda þeim í þægilegri fjarlægð og kláruðu að lokum verkefnið 91-72 þar sem Teodosic var með 17 stig og 13 stoðsendingar. Miroslav Raduljica var samt stigahæstur í liði Serba með 20 stig og 6 fráköst. Hjá Tyrkjum gerði leikstjórnandinn Ali Muhammed 16 stig og gaf 4 stoðsendingar. 

Tölfræði leiksins

Núna næst á dagskrá er leikur Ítalíu og Þýskalands kl. 17:45 að staðartíma eða kl. 15:45 að íslenskum tíma. 

Mynd/ [email protected] – Teodosic vippar sér upp gegn Tyrkjum. 

Fréttir
- Auglýsing -