spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaTíundi sigurleikur Fjölnis í röð er þær lögðu Stólana í Síkinu

Tíundi sigurleikur Fjölnis í röð er þær lögðu Stólana í Síkinu

Körfuboltinn fór aftur í gang á nýju ári þegar Tindastóll tók á móti toppliði Fjölnis í 1. deild kvenna í körfuknattleik á Sauðárkróki í dag. Með sigri hefði Tindastóll jafnað stigatölu Fjölnis á toppnum en skelfilegur 3. leikhluti og nokkrar slæmar ákvarðanir á lokakaflanum komu í veg fyrir það.

Leikurinn byrjaði fjörlega, þó aðallega hjá gestunum sem komust í 3-10 forystu snemma leiks. Sprettur frá heimakonum sá þó til þess að leikurinn jafnaðist og staðan að loknum 1. leikhluta var 27-26 gestunum í vil. Fullmikið skorað að mati beggja þjálfaranna sem lögðu áherslu á það í leikhléi að ná betri tökum á varnarleiknum. Það tókst hjá báðum liðum en þó mun betur hjá Tindastól sem spiluðu feykigóðan annan leikhluta. Tess skoraði fyrstu sex stig leikhlutans úr hröðum sóknum og Halldór Karl tók leikhlé en það náði ekki að rétta kúrsinn af og Tindastóll hélt áfram að bæta í og kláruðu leikhlutann með glæsilegum þristi frá Kristínu Höllu, staðan 48-39 í hálfleik.

Eins og annar leikhluti var afbragðs vel leikinn hjá heimastúlkum þá virtust þær alveg heillum horfnar í þeim þriðja. Gestirnir gengu á lagið og minnkuðu muninn jafnt og þétt og komust yfir þegar leikhlutinn var hálfnaður en þá höfðu heimakonur einungis sett 2 stig á töfluna á 5 þeim 5 mínútum sem liðnar voru. Það lagaðist ekki mikið seinni hluta leikhlutans og þegar honum lauk hafði Fjölnir náð góðri forystu 53-61 og unnið leikhlutann með 22 stigum gegn aðeins 5 hjá heimakonum. Mikil sveifla í leiknum og erfitt fyrir heimakomnur að koma til baka. Þær eru þó þekktar fyrir allt annað en að játa sig sigraðar og byrjuðu 4. leikhluta með áhlaupi, 4, stigum frá Marín sem hafði lítið spilað í 3ja leikhluta vegna villuvandræða. Stefanía Ósk svaraði með 5 stigum hinumegin en Tessondra hélt heimaliðinu inni í leiknum með 5 stigum á móti. Eva Rún minnkaði svo muninn í 2 stig þegar rétt um 5 mínútur voru eftir en svo var eins og eitthvað gæfi eftir í leik Stóla og þær fóru að taka ótímabær og slæm skot. Gestirnir gengu á lagið og skoruðu næstu 8 stig og gerðu þar með út um leikinn þó Tess hafi hleypt smá lífi í þetta með 5 stigum á 20 sek undir lokin. Það var þó ekki nóg og Fjölnir sigldi að lokum heim sigri 71-80 og auka forskot sitt á toppi 1. deildar kvenna.

Tess Williams átti góðan leik fyrir Tindastól þó hún væri að kljást við góða vörn allan leikinn. Hún lauk leik með 30 stig og 6 fráköst. Marín Lind bætti 15 stigum við og Telma Ösp reif niður 12 fráköst en augljóst var að Tindastóll saknaði Hrefnu og Karenar. Hjá gestunum var Hulda Ósk frábær með sannkallaða tröllatvennu, 31 stig og 18 fráköst. Heimakonur í Tindastól höfðu betur í frákastabaráttunni en gestirnir voru að spila boltanum mun betur á milli sín og sást það vel á því að þær áttu 18 stoðsendingar á meðan aðeins 7 slíkar voru skráðar á heimaliðið.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun, myndir, viðtöl / Hjalti Árna

Fréttir
- Auglýsing -