spot_img
HomeFréttirTíu stiga sigur hjá MBC eftir framlengingu

Tíu stiga sigur hjá MBC eftir framlengingu

Hörður Axel Vilhjálmsson og félagar í þýska Pro A liðinu lentu í basli á heimavelli um helgina þegar VfL Kircheim Knights komu í heimsókn. MBC hafði sigur að lokum eftir framlengdan leik en MBC vann framlenginguna með 10 stiga mun, 16-6 þar sem lokatölur reyndust 92-82.
Hörður var í byrjunarliðinu sem fyrr og gerði 18 stig fyrir MBC á sléttum 30 mínútum. Hann var einnig með 7 fráköst, 6 stoðsendingar og tvo stolna bolta.
 
Nú þegar fjórar umferðir eru eftir í Pro A deildinni eru MBC í efsta sæti deildarinnar með 38 stig eða sex stigum meira en gamla liðið hans Jóhanns Árna Ólafssonar, Crailsheim Merlins. Deildarmeistaratitillinn er því innan seilingar hjá Herði og félögum sem dugir einn deildarsigur til viðbótar til að landa dollunni.
 
Carilsheim Merlins hafa leikið einum deildarleik meira en MBC en liðin mætast einmitt í síðustu umferðinni. Þegar deildarkeppninni lýkur verður blásið til úrslitakeppni þar sem 8 lið taka þátt rétt eins og hér heima á Íslandi. Karfan.is náði snöggu tali af Herði Axel: ,,Þetta er í fyrsta skipti sem úrslitakeppnin er sett á í Pro A deildinni, annars værum við komnir upp eftir einn sigur til viðbótar," sagði Hörður.
 
Í fyrstu umferðinni þarf að vinna þrjá leiki sem og í undanúrslitum, í úrslitaseríunni þarf að vinna tvo leiki til að verða meistari í Pro A deildinni en þau tvö lið sem leika til úrslita komast upp í þýsku úrvalsdeildina, Bundesliguna.
 
Ljósmynd/ Matthias Kuch
 
  
Fréttir
- Auglýsing -