Í kvöld fer fram fjórða viðureign KR og Stjörnunnar í úrslitum Iceland Express deildar karla. Leikurinn er í Ásgarði og hefst kl. 19:15 og verður vitaskuld í beinni útsendingu hjá Stöð 2 Sport. Staðan í einvíginu er 2-1 KR í vil eftir 101-81 sigur í DHL-höllinni á sunnudag. Allir sigrarnir í einvíginu hafa komið á heimavelli og von á miklum slag í kvöld enda hafa menn verið ósparir á kyndingar allar götur síðan lokaflautið gall á sunnudag.
KR dugir sigur í kvöld til þess að verða Íslandsmeistari en ef Stjarnan vinnur þá verður oddaleikur í vesturbænum á fimmtudagskvöld. Stjörnumenn voru allt annað en sáttir eftir þriðja leikinn og kom það vel fram í máli þeirra víða að þeim hefði fundist á sig hallað í dómgæslunni. KR-ingar gerðu róm að dómgæslunni eftir annan leikinn svo bæði lið hafa tekið bita af dómarakökunni og eru vonandi orðin södd!
Úrslit í fyrstu þremur leikjum liðanna:
Leikur 1: KR 108-78 Stjarnan
Leikur 2: Stjarnan 107-105 KR
Leikur 3: KR 101-81 Stjarnan
Vissara er að mæta snemma í Ásgarð í kvöld enda von á fjölmenni. Fylgist með www.stjarnan-karfa.is vegna miðasölu og opnunartíma hennar í dag.