13:29
{mosimage}
Tindastólsmönnum munu fá liðsauka í febrúar þegar enn einn heimamaðurinn snýr aftur. Helgi Freyr Margeirsson sem hóf ungur að leika með meistaraflokk félagsins en hefur verið lengi í útlegð mun flytja á Sauðárkrók í febrúar og ætlar að spila með félaginu fram á vor.
Karfan.is heyrði í Helga Frey og spurði hvers vegna hann væri að koma heim.
Ástæðan fyrir þvi að við erum að koma heim er vegna náms Margrétar kærustunnar minnar. En hún er að fara á Krókinn í starfsnám. Ég er að skrifa mastersritgerðina mína þannig að ég er ekki fastur í Danmörku og hefur þetta þar af leiðandi engin áhrif á mitt nám.
Hvernig líst þér á að mæta á Krókinn og spila með gömlu félögunum?
Mér líst bara mjög vel á að koma og spila á Króknum. Tindastóll er meðsterkan hóp innan vallar sem utan þar sem eru margir uppaldir Tindastólsmenn sem ég hlakka mikið til að vinna með.
Nú hefur þú átt við meiðsli að stríða undanfarið, er von á bótum þar?
Ég er búinn að vera að glíma við hnémeiðsli síðan í ágúst og er enn í þeirri baráttu. Það er vonandi að eitthvað fara að gerast í þeim efnum núna í janúar. Þetta hefur auðvitað haft sín áhrif og ég hef ekki getað æft eða beitt mér á fullu vegna þessa og formið hefur verið eftir því.
Nú er Randers sem þú leikur með í Danmörku í toppbaráttunni, er ekki erfitt að yfirgefa þá?
Það er auðvitað ekki gaman að skilja við Randers i toppbaráttunni og með góðan möguleika á verðlaunum en maður verður að velja og hafna í þessu og í þetta skiptið valdi ég Tindastól og ég er mjög sáttur við þá ákvörðun reyna að vinna til verðlauna með þeim. Forráðamenn Randers eru mjög skilningsríkir við mig og þetta er allt gert í góðu samkomulagi við þá.
Hvað með næsta haust, hvar muntu spila þá?
Tíminn einn leiðir það í ljós hvað verður á næsta ári en stefnan í dag er sett aftur út, en það getur allt breyst.
Helgi Freyr lék sinn fyrsta leik í Úrvalsdeild skömmu fyrir 15 ára afmælið sitt 1997 og alls urðu leikirnir 43 með Tindastól áður en hann hélt til Bandaríkjanna, hann spilaði svo með Þór á Akureyri í eitt tímabil og hefur þú alls leikið 65 leiki í Úrvalsdeild og skorað 6,2 stig að meðaltali í leik. Undanfarin þrjú tímabil hefur hann leikið með Randers í dönsku Úrvalsdeildinni og eru leikirnir orðnir 48 í deildinni.
Mynd: Sveinn Pálmar Einarsson



