Heimamenn í Tindastól skoruðu fyrstu stig leiksins en svo var eins og slökknaði á þeim sóknarlega og gestirnir náðu forystu. Með baráttu í vörninni náðu heimamenn þó að halda í við gestina og staðan var 17:18 að loknum fyrsta fjórðung.
Hittni heimamanna var ekki góð en vörnin hélt þeim inni í leiknum. Í öðrum fjórðung skánaði spilamennska heimamanna aðeins og þeir komust fljótlega yfir með góðum þrist frá Arnþóri og komust svo í 14 stiga forystu þegar skammt var eftir af fyrri hálfleik með þristi frá Pálma Geir sem spilaði ekki mikið í kvöld. Mirko lagaði stöðuna fyrir leikhlé 42-30.
Í seinni hálfleik áttu menn í stúkunni von á að Tindastóll myndi keyra á gestina og klára leikinn en gestirnir náðu alltaf að svara fyrir sig og munurinn hélst þetta 10-12 stig lengi en gestirnir náðu að minnka forystu heimamanna í 4 stig þegar rúm mínúta lifði af 3ja fjórðung. Helgi Freyr setti mikilvægan þrist í lok leikhlutans og kom forystunni aftur í 7 stig fyrir lokafjórðunginn 63-56. Í síðasta fjórðungnum var svo stál í stál og heimamenn náðu ekki að gera út um leikinn fyrr en í lokin þegar Pétur Rúnar setti niður tvö víti þegar 18 sekúndur voru eftir. Gestirnir náðu ekki að nýta síðustu sóknina og baráttusigur heimamanna í höfn 80-75.
Kári Marísson sem stýrði Tindastól í kvöld sagði að þeir hefðu verið ljónheppnir að landa þessum sigri í kvöld, þetta hefði getað lent hvorum megin sem var. Vörnin hafi verið ágæt mestan hluta leiksins og í raun bjargað sigrinum þegar mest lá á en að í lokin hafi þeir verið heppnir að vinna. Það er ljóst að nýr þjálfari, sem og leikmenn, eigi töluverða vinnu fyrir höndum til að ná einhverju í líkingu við styrk liðsins á síðasta tímabili.
Sóknarleikur heimamanna virkaði óskipulagður í leiknum og þegar menn eru hvað eftir annað að klikka á auðveldum skotum undir körfunni hefur það slæm áhrif á sjálfstraustið. Jerome Hill er ekki að standa undir þeim væntingum sem menn bera til erlendra leikmanna í deildinni og margir í Síkinu voru á því að hann eigi að senda heim hið snarasta. Dómarar leiksins, þeir Jón Guðmundsson, Halldor Geir Jensson, Kristinn Óskarsson, áttu heldur slakan leik svo vægt sé tekið til orða, virkuðu óöryggir og tóku rangar ákvarðanir.
Lewis og Flake voru drjúgir fyrir heimamenn og þá átti Helgi Rafn fínan leik og hitti betur en oft áður. Hjá gestunum var Tobin Carberry allt í öllu, spilaði hverja einustu mínútu og endaði með 28 stig. Mirko var líka sterkur með 21 stig og 10 fráköst en Hreinn Gunnar fann sig ekki á sínum gamla heimavelli.
Mynd: Bræðurnir Hreinn og Svavar börðust í Síkinu
Umfjöllun og myndasafn/ Hjalti Árnason



