spot_img
HomeFréttirTindastóll valtaði yfir Snæfell

Tindastóll valtaði yfir Snæfell

Snæfell mætti í Síkið í kvöld með aðeins sjö menn á leikskýrslu vegna meiðsla og veikinda.  Fyrirfram var búist við auðveldum sigri heimamanna og það varð raunin á endanum en áhorfendur á pöllunum voru þó alls ekki ánægðir með byrjun leiksins því Snæfell byrjaði miklu betur og Tindastólsmenn voru bara varla með fyrstu mínúturnar.  Eftir rúmar 5 mínútur var staðan 12-18 fyrir gestina og Costa alveg brjálaður á línunni enda heimamenn varla vaknaðir.  Lewis var þó með lífsmarki og sá til þess að Tindastóll hélt í við gestina og jafnaði í 20-20 með sínum fjórða þristi í leikhlutanum og Dempsey kom svo Tindastól yfir með 4 síðustu stigunum í leikhlutanum.

 

Eftir þetta má segja að heimamenn hafi tekið yfir, loksins vaknaðir og þristar frá Helga Frey og nokkrar góðar troðslur frá Dempsey komu lífi í húsið og forystunni í 17 stig í hálfleik 54-37.  Það var allt annað yfirbragð yfir liðinu þegar Dempsey kom inná og greinilegt að hann er óðum að komast í fyrra form og nýtur þess að spila í Síkinu.  Gurley var hinsvegar algerlega heillum horfinn í kvöld og skoraði ekki stig á þeim 15 mínútum sem hann spilaði.

 

Heimamenn héldu keyrslunni áfram í seinni hálfleik og Dempsey og Lewis leiddu vagninn auk þess sem Helgi Rafn var öflugur og hélt stemningunni uppi.  Eftir að Lewis hafði komið forystunni í 23 stig í upphafi seinni hálfleiks var sigur heimamanna í raun aldrei í vafa og engin spenna í leiknum lengur, jafnvel þó Snæfell hafi komið muninum í 15 stig með þrist og víti frá Bracey í lok þriðja leikhluta.  Tindastóll herti einfaldlega aðeins tökin í upphafi þess fjórða og sigldu heim 29 stiga sigri 114-85.

 

Dempsey (34 stig) og Darrel "Rauðvín" Lewis (35 stig, 9 fráköst og 6 stoðsendingar) voru frábærir í kvöld og sá gamli virðist vera að ná sér eftir smá lægð undanfarið.  Pétur Rúnar (12 stig) og Helgi Rafn fyrirliði (15 stig, 8 fráköst) voru líka öflugir.  Hjá gestunum voru það Sherrod (24 stig, 14 fráköst) og Austin (33 stig) sem leiddu vagninn en Snæfell höfðu einfaldlega ekki breidd til að standa nokkuð í Tindastól í kvöld.

 

Mynd: Dempsey treður

 

Tölfræði leiksins

Fréttir
- Auglýsing -