spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild karlaTindastóll upp í fimmta sætið eftir sigur gegn Hetti

Tindastóll upp í fimmta sætið eftir sigur gegn Hetti

Tindastóll tók á móti Hetti í Subway deild karla í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Leikurinn átti upphaflega að fara fram 2. febrúar en var frestað vegna veðurs.

Stólar töpuðu illa fyrir Stjörnunni í síðasta leik á meðan Höttur vann nauman sigur á KR fyrir austan.

Leikurinn fór fjörlega af stað í kvöld og liðin skiptust á körfum. Taiwo Badmus fór vel af stað fyrir Stóla en Hattarmenn virtust alltaf eiga svör við aðgerðum heimamanna og leikurinn var stál í stál. Staðan 28-25 að loknum fyrsta leikhluta. Áfram héldu liðin að skiptast á höggum en tröllatroðsla frá Keyshawn virtist færa heimamönnum frumkvæði. Kjánaleg villa frá Sigga Þorsteins, strax í næstu sókn Hattar, dró þó aðeins úr því höggi. Tindastólsmenn héldu þó áfram að vera sterkari aðilinn og fóru að ná fleiri og fleiri stoppum í vörninni og þristur frá Arnari Björns um miðjan leikhlutann kom Stólum í 13 stiga forystu og Viðar tók leikhlé. Höttur náði í kjölfarið 8-0 áhlaupi en það voru heimamenn sem enduðu hálfleikinn betur. Keyshawn setti 4 stig í röð í samloku tveggja þrista frá Davis Geks, annar þeirra laaangur flautuþristur sem lokaði hálfleiknum vel, eins og hann hafði líka gert í fyrsta leikhluta. Geks var að koma sterkur inn í lið Tindastóls, hörkuvarnarmaður og með gríðarlega fallegt skot.

Þriðji leikhluti hefur oft verið Tindastól erfiður í gegnum tíðina og skemmst er að minnast leiksins gegn Stjörnunni í síðustu viku. Nú var annað uppi á teningnum og þristur frá Keyshawn opnaði seinni hálfleikinn á besta veg fyrir heimamenn. Höttur klóraði í bakkann með þristum frá Gísla og Ramos en þristar frá Arnari og Drungilas, auk tröllatroðslu frá hinum síðarnefnda komu forystu Tindastóls í 69-51 og Viðar tekur leikhlé. Það skilaði töpuðum bolta og troðslu frá Taiwo og munurinn kominn í 20 stig og gríðarleg stemning í Síkinu. Arnar bætti við körfu en svo var eins og Pavel vorkenndi Hetti og skipti Keyshawn og Arnari útaf fyrir Geks og Sigga Þorsteins. Þessi skipting dró tennurnar úr áhlaupi Stóla sem fengu á sig 2 þrista frá Hattarmönnum að auki. Síðustu 3-4 mínútur leikhlutans voru svo hálfgerður skrípaleikur þar sem menn virtust í keppni um hvor gæti tapað fleiri boltum og þar voru Siggi Þorsteins og Matej í aðalhlutverkum. Tveir vörumerkisþristar frá Axel Kára, auk eins frá Arnari komu muninum í 23 stig en Höttur átti síðustu stigin fyrir lokaátökin, staðan 82-65.

Lokaleikhlutinn hófst með smá sýningu frá Arnari Björns sem setti tvo þrista og fékk vítaskot að auki við þann seinni, 7 stig í röð frá kappanum. Munurinn hélst um 20 stigin inn í miðjan leikhlutann og þá henti Viðar inn handklæðinu og fjölgaði Íslendingum á parketinu. Leikurinn fjaraði svo út og helst glöddu augað góður samleikur gömlu brýnanna Helga Rafns og Axels Kára og flottur þristur frá Orra Svavars í blálokin.

Tindastóll sýndi í kvöld hvers liðið er megnugt þegar það heldur haus nógu lengi og menn hitta úr skotunum sínum. Arnar Björns fór fyrir heimamönnum með frábærum leik, setti 32 stig og sendi 6 stoðsendingar að auki, sumar algert sælgæti. Drungilas átti flottan leik með 10 stig og 9 fráköst auk 5 stoðsendinga og nýr leikmaður Davis Geks stimplaði sig vel inn með 2 flautuþristum og öflugum leik. Hjá Hetti voru Tim Guers og Bryan Alberts (20 stig) öflugastir en Hattarmenn gjörtöpuðu frákasta baráttunni í leiknum 41-24 og þar af tóku Stólar 14 sóknarfráköst.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun, myndir, viðtal / Hjalti Árna

Fréttir
- Auglýsing -