Tindastóll sigraði Keflavík með 96 stigum gegn 80 í öðrum leik liðanna í 8 liða úrslitum. Tindastóll leiðir einvígið því 2-0 og þurfa aðeins 1 sigur í viðbót til þess að tryggja sína þátttöku í undanúrslitunum, en næsti leikur liðanna er í Keflavík komandi miðvikudag kl 19.15.
Fyrir leikinn kannski ekki við öðru að búast en sigri heimamanna ef litið er til síðustu viðureigna þessara liða. Með leiknum vann Tindastóll sinn fjórða leik í röð gegn Keflavík. Mætti alveg leiða að því líkum að Stólarnir væru komnir með eitthvað tak á Keflavík. Sigling liðanna líka mjög ólík, Tindastóll að sigra sinn áttunda leik í röð á meðan að tapið var þriðja tap Keflavíkur í röð.
Jerome Hill opnar leikinn með laglegu sniðskoti og kemur Keflavík, með því, 0-2 yfir. 2 mínútum seinna svarar Tindastóll. Liðin skiptast svo á að setja stig á töfluna. Frekar hægt þó, varnirnar voru að vinna vinnuna sína. Keflavík þó þessar fyrstu mínútur skrefinu á undan. Staðan er 8-8 þegar að hlutinn er hálfnaður. Fyrsta forysta heimamanna kom ekki fyrr en undir lok leikhlutans, en á síðustu 2 mínútum leikhlutans tóku þeir öll völd á vellinum. Enduðu hlutann á 11-2 áhlaupi. Leikhlutinn endaði með 7 stiga forystu heimamanna, 21-14. Heimamaðurinn Helgi Rafn Viggósson fór mikinn á þessum fyrstu mínútum leiksins. Eftir aðeins 10 mínútna leik var hann kominn með 6 stig, 6 fráköst og 4 stoðsendingar.
Annar leikhlutinn var svo spilaður í svipuðum dúr og sá er á undan kom. Leikurinn var frekar harður og ljóst að alls ekki neitt yrði gefins. Dómarar leiksins virtust valda því verkefni einkar vel. Stólunum gengur vel að halda í þá forystu sem þeir höfðu byggt upp í 1. leikhlutanum. Gestirnir klóra þó aðeins í bakkann fyrir lok hlutans og ná að fara aðeins 3 stigum undir til búningsherbergja í hálfleik, 41-38.
Áðurnefndur Helgi Rafn var atkvæðamestur fyrir heimamenn í hálfleik með 8 stig, 9 fráköst og 4 stoðsendingar á meðan að fyrir gestina var það Jerome Hill sem dróg vagninn með 14 stigum og 5 fráköstum.
Skot Keflvíkinga fóru þó að detta eftir hléið. Magnús Már Traustason setti tvo þrista og Valur Orri Valsson bætti einum við til þess að koma Keflavík aftur í nauma forystu46-47. Ljóst var hinsvegar þarna hvað Keflvíkingar væru illa að sér í frákastafræðum og í raun var erfitt að sjá hvernig þeir mögulega gætu átt við það vandamál. Stólarnir náðu t.a.m. að taka heil 4 fráköst í sömu sókninni hjá sér áður en þeir skoruðu. Þjálfari Tindastóls tekur þá leikhlé og menn hans enda hálfleikinn á myndarlegu 20-4 áhlaupi. Fyrir lokaleikhlutann var staðan 69-54 fyrir heimamenn.
Engin teljandi villuvandræði voru á leikmönnum beggja liða fyrir lokahnykkinn. Þó máttu Helgi Rafn Viggóson (T), Myron Dempsey (T), Magnús Már Traustason (K) og Jerome Hill (K) allir passa sig því þeir voru með 3 villur.
Fjórða leikhlutann byrjar þjálfari Keflavíkur, Sigurður Ingimundarson, á að fá einu tæknivillu leiksins dæmda á sig fyrir almennan pirring og að er virtist uppsafnað röfl. Tæknivillu sem í raun sagði allt um það sem koma skyldi fyrir Keflavík í leiknum. Þeir reyndu hvað þeir gátu til þess að komast aftur inn í leikinn. Með allskonar aðferðum líka. Voru sem dæmi byrjaðir að brjóta til þess að hægja á klukkunni þegar rúmar 3 mínútur voru eftir af leiknum. Ekkert gekk hjá þeim. Tindastóll hélt 10-16 stiga forystu sinni allt til loka leiksins. Leikurinn endaði með 16 stiga sigri heimamanna 96-80.
Munurinn á liðunum í kvöld var einfaldur. Það voru fráköst. Keflavík einfaldlega náði ekki nógu miklu af þeim til þess að vinna leikinn. Tindastóll fékk alltof mörg tækifæri, en þeir tóku 53 fráköst í leiknum á móti aðeins 36 Keflvíkinga. 23 þessara frákasta Tindastóls voru tekin í sókn og skiluðu þau af sér 24 stigum fyrir þá.
Maður leiksins var leikmaður Tindastóls Helgi Rafn Viggósson, en hann skoraði 11 stig, tók 13 fráköst og gaf 7 stoðsendingar á 30 mínútum.
Næsti leikur einvígissins er suður með sjó í Keflavík komandi miðvikudag kl 19.15 og getur Tindastóll með sigri tryggt sér þátttöku í undanúrslitunum.
Umfjöllun / Davíð Eldur
Mynd/ SIV



