Tindastóll hafði betur í fyrstu orrustunni um norðurlandið þegar þeir mættu Þór frá Akureyri í Síkinu í kvöld.
Bæði lið höfðu tapað fyrsta leik sínum í deildinni, Þór fyrir Stjörnunni eftir framlengingu og Tindastóll á útivelli gegn KR.
Leikurinn fór fjörlega af stað og augljóst að bæði lið ætluðu að selja sig dýrt. Stólar komust í 10-7 en Þórsarar skoruðu næstu 7 stig og leiddu skyndilega 10-14. Þá hrukku heimamenn í gang aftur og voru komnir yfir eftir fyrsta leikhluta 19-16. Það var ekki síst fyrir frábæran kafla hjá Pétri Rúnari sem setti tvo þrista og var feykilega öflugur í vörninni líka.
Gamla brýnið Darrel Lewis byrjaði annan fjórðung á að klukka inn þrist og jafna leikinn fyrir Þórsara. Heimamenn vöknuðu aðeins við þetta og sigu framúr en þó aldrei langt, leiddu með tveimur stigum um miðjan fjórðung 34-32. Nú kom skemmtilegur kafli, Samb átti risatroðslu yfir Tryggva Hlinason og fékk víti að auki og kom heimamönnum í 40-35 en örskömmu síðar skiptu þeir um hlutverk, Tryggvi hamraði einni niður og fékk villu að auki, frábær tilþrif. Tindastóll leiddi í leikhléi með fjórum stigum og miklu munaði um að Samb virtist hafa fundið fjölina sína og skoraði 9 af síðustu 11 stigum Stóla í fjórðungnum.
Pétur Rúnar kaom muninum í sex stig í upphafi seinni hálfleiks en Þórsarar komu sterkir til baka og unnu fjórðunginn. Staðan 66-65 fyrir lokaátökin. Síðasti fjórðungurinn fór rólega af stað en þegar um þrjár mínútur voru liðnar og staðan 69-69 skoraði Samb umdeilda körfu og fékk villu að auki. Hann klikkaði á vítinu en Helgi Rafn náði sóknarfrákastinu og Björgvin smellti risaþrist í andlit Þórsara og munurinn allt í einu orðinn 5 stig 74-69 og Þórsarar ekki sáttir. Samb átti svo næstu 12 stig Stólanna, þar á meðal tvo þrista og þegar um tvær mínútur voru eftir kom Helgi Rafn Stólum 11 stigum yfir 88-77. Benedikt þjálfari Þórs henti inn handklæðinu þegar um ein og hálf mínúta var eftir, 11 stiga munur og Pétur Rúnar á vítalínunni. Hann setti bæði niður og tryggði þetta fyrir Stólanna, þó Lewis setti þrist í næstu sókn var það einfaldlega of seint og Tindastóll sigldi sigrinum heim 94-82.
Pétur Rúnar fór fyrir Tindastól eins og herforingi í kvöld og átti frábæran leik með 20 stig og 8 stoðsendingar. Samb sýndi að meira býr í honum en menn sáu gegn KR, hann skilaði 25 stigum og 10 fráköstum þó að ekki fari hann hratt yfir. Lewis var stigahæstur í fremur döpru Þórsliði sem á þó töluvert inni.
Maður leiksins: Pétur Rúnar Birgisson.
Umfjöllun, myndir, viðtöl / Hjalti Árnason
Viðtöl: