spot_img
HomeFréttirTindastóll sigraði Keflavík sannfærandi í Síkinu

Tindastóll sigraði Keflavík sannfærandi í Síkinu

Tindastóll vann öruggan sigur á Keflavík í leik liðanna í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld.  Lokatölur urðu 97-74 fyrir heimamenn sem fögnuðu þar með sínum fyrsta sigri á liði Keflavíkur í tíu ár í úrvalsdeild.
 
Fyrir leikinn var afmælissöngurinn sunginn fyrir hinn síunga Kára Marísson sem varð 39 ára í kvöld að sögn vallarþular.  Jafnframt var Helgi Viggósson fyrirliði Tindastóls heiðraður en hann var að spila sinn 200. leik í kvöld.
 
Heimamenn byrjuðu með miklum látum og voru komnir í 8-0 þegar Keflavík náði loks að svara.  Leikurinn jafnaðist svo um stund en Stólarnir gáfu aftur í í lok fyrsta leikhluta og leiddu eftir hann með 12 stigum, 27-15.  Lewis, Dempsey og Pétur Rúnar voru allir að spila mjög vel.  Tindastóll hélt svo áfram að þjarma að gestunum í 2. leikhluta en Keflvíkingar kláruðu hálfleikinn sterkt. William Thomas Graves IV náði mögnuðum þrist og fékk víti að auki sem hann setti niður. Í næstu sókn náðu gestirnir aftur að skora og fá víti sem þeir nýttu.  Pétur Rúnar átti síðustu körfu hálfleiksins og Tindastóll leiddi 44-36 í hálfleik en gestirnir voru búnir að sýna að þeir geta bitið frá sér og menn í Síkinu sáu að brugðið gat til beggja vona í seinni hálfleik.
 
Jafnræði var með liðunum í upphafi seinni hálfleiks en þegar 3. leikhluti var hálfnaður fóru heimamenn að síga framúr, Helgi Margeirs og Svavar hittu úr þristum og við lok leikhlutans var munurinn orðinn 15 stig 73-58.  Stólarnir bættu svo bara í í síðasta leikhlutanum og voru komnir með þægilega 23 stiga forystu þegar rúmar 6 mínútur voru eftir og litu ekki um öxl eftir það.  Keflvíkingar létu mótlætið fara í taugarnar á sér, fengu á sig tæknivillur og náðu aldrei að komast inn í leikinn af viti þrátt fyrir ágætis baráttu Guðmundar Jónssonar á köflum.
 
Sigur Tindastóls var í raun aldrei í hættu og þeir leyfðu Keflvíkingum einfaldlega aldrei að komast í neinn takt.  Það segir sína sögu að enginn leikmanna gestanna náði jákvæðu +/- gildi í leiknum samkvæmt tölfræðinni.  Þröstur Jóhannsson áttu ágæta spretti, sem og Graves og Guðmundur sem var stigahæstur gestanna með 23 stig.
 
Hjá heimamönnum var liðsheildin ógnarsterk, með þá Pétur Dempsey og Lewis í broddi fylkingar.  Ungu strákarnir í hópnum skiluðu sínum mínútum frábærlega og 8 leikmenn komust á blað í kvöld.  Helgi Rafn Viggósson sagði við Karfan.is eftir leikinn að þjálfarateymið ætti hrós skilið fyrir stjórnun leiksins, aldrei var þreyttur maður inni á vellinum og allir voru með sitt hlutverk á tæru þegar þeir komu inn og skiluðu því af sér með sóma.  Svavar Atli Birgisson bætti við að  það væri enginn gamall í þessu liði, hópurinn væri frábær og menn hefðu gaman að þessu.  Svavar skoraði 9 stig í leiknum og með fyrstu körfu sinni í kvöld braut hann 3000 stiga múrinn í efstu deild, magnaður ´sá gamli´
 
Umfjöllun: Hjalti Árnason
Mynd: Dempsey var sterkur í kvöld með 23 stig og 15 fráköst (Hjalti Árnason)
Fréttir
- Auglýsing -