spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaTindastóll með sætan sigur gegn Íslandsmeisturunum

Tindastóll með sætan sigur gegn Íslandsmeisturunum

Tindastóll tók á móti Stjörnunni í Bónus deild karla í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Liðin spiluðu eftirminnilega til úrslita á síðasta tímabili þar sem Stjarnan vann deildina í oddaleik í Síkinu.

Stólar byrjuðu leikinn betur og komust fljótt í 5-0 en Stjörnumenn voru fljótir að svara með 2 þristum frá Orra og eftir troðslu frá Giannis komust gestirnir í 5-11 eftir 4 mínútur. Heimamenn náðu vopnum sínum aftur og komust yfir með góðri hittni og sterkri vörn. Taiwo var að hitta fyrir utan og sömuleiðis Ivan sem kom sterkur inn af bekknum. Staðan 29-24 að loknum fyrsta leikhluta. Stólar komu svo ógnarsterkir inn í annan leikhluta og náðu öllum völdum á vellinum. Arnar setti tvo frábæra þrista og kom muninum í 15 stig eftir 3 mínútur og Geks bætti við. Stjörnumenn voru ekki að hitta vel og Stólar gengu á lagið og leiddu 63-39 í hálfleik.

Myndasafn ( Væntanlegt )

Heimamenn í Síkinu virtust reikna með að leiknum væri lokið og þegar Taiwo kom muninum í 27 stig með þrist var eins og allir Tindastólsmegin sofnuðu og það átti við liðið líka. Stjarnan byrjaði að éta muninn niður og voru miklu ákveðnari í öllum sínum aðgerðum. Stólar voru kærulausir og þegar þriðja leikhluta lauk var munurinn kominn niður í 11 stig, 78-67. Gestirnir héldu áfram áköfum varnarleik og Stólarnir voru áfram dofnir og þegar tæpar 4 mínútur voru eftir minnkuðu þeir muninn í 1 stig 87-86 og allt á suðupunkti í Síkinu. Drungilas kom Stólum yfir en Giannis, sem hafði ekki hitt vel, jafnaði með þrist. Basile kom Stólum aftur yfir en Giannis jafnaði aftur og einungis mínúta eftir. Geks setti risaþrist en næstu 3 körfur voru gestanna og einungis 2 sekúndur eftir. Arnar fékk boltann og Seth braut á honum og gaf víti á lokasekúndunni sem Arnar setti að sjálfsögðu niður og tryggði heimamönnum ótrúlega sætan sigur 96-95. Háspenna í Síkinu!

Tölfræði leiksins

Hjá Stólum endaði Taiwo stigahæstur með 23 stig og Geks bætti 18 við. Basile var með 14 stig og 9 stoðsendingar og endaði framlagshæstur Stóla. Hjá Stjörnunni átti Luka Gasic frábæran leik með 26 stig og 9 fráköst.

Viðtöl

Baldur Þór Ragnarsson
Arnar Guðjónsson

Umföllun / Hjalti Árna

Fréttir
- Auglýsing -