spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaTindastóll með fyrsta heimasigurinn gegn ÍR

Tindastóll með fyrsta heimasigurinn gegn ÍR

Fyrir leikinn

Tindastóll tók á móti ÍR í Síkinu í dag kl.16:30. Hvorugt lið hafði unnið leik upp að þessu og því ljóst að hart yrði barist. Nína Jenný Kristjánsdóttir var ennþá úti vegna veikinda en Hrafnhildur Magnúsdóttir var komin til baka. Birna Eiríksdóttir, stigahæsti leikmaður ÍR-inga var ekki með að þessu sinni. Tindastóll vantaði enga leikmenn.

Gangur leiksins

ÍR byrjaði leikinn ágætlega og tóku forystuna fljótlega með því að spila vel saman og finna góð skot. Tindastóll tók þó við sér og náði forystunni aftur fyrir lok fyrsta leikhluta. Þær vínrauðu héldu áfram að hlaupa á ÍR og auka þannig muninn í byrjun annars leikhluta en gestirnir klóruðu sig til baka og fyrri hálfleik lauk 29-25, Tindastól í vil.

Tindastóll átti frábæran þriðja leikhluta á sama tíma og ÍR-stelpurnar áttu hörmulegar 10 mínútur. Ekkert skot virtist vilja fara ofan í hjá ÍR og Tindastóll gékk á lagið og juku muninn. Leikhlutinn fór 19-6 og staðan fyrir lokafjórðunginn var því 48-31.

Eitthvað virtust heimastúlkur yfirspenntar á seinustu 10 mínútunum því að þær voru fljótt komnar með fjórar liðsvillur og ÍR fékk heila glás af vítaskotum undir lok leiksins. Þær höfðu fram að þessum punkti hitt úr 7 af 16 vítaskotum sínum en settu á seinustu sex mínutum leiksins 12 af 14! Breiðholtspíurnar tóku 11-2 áhlaupa á seinustu þrem mínútum leiksins en það dugði ekki til og leikurinn fór 61-52 að lokum, heimastúlkum í vil.

Lykillinn

Tessondra Williams, erlendur leikmaður Tindastóls, átti næstum því “heila svarta línu” í leik kvöldsins, þ.e.a.s. hún leiddi lið sitt í nær öllum tölfræðiþáttum. Tess lauk leik með 26 stig, 10 fráköst, 5 stoðsendingar, 4 stolnum boltum og 8 fiskuðum villum. Hún var framlagshæst með 34 framlagspunkta.

Tölfræðin

ÍR átti annan slakan skotleik, en þær hittu aðeins úr 23% skota sinna utan af velli. Það bjargaði þeim mögulega aðeins hvað þær fengu mörg sóknartækifæri, en þær tóku þrefalt fleiri sóknarfráköst en Tindastóll (18 á móti 6). Tindastóll hitti hins vegar betur úr skotunum sínum (36%, 21/59 í skotum) og heimastúlkur voru líka duglegari að refsa mistökum ÍR-inga (8 stig úr töpuðum boltum).

Kjarninn

Tindastóll hefur hingað til átt ágæta leiki en ekki unnið vegna þess að þær voru að fara upp á móti sterkustu liðum deildarinnar. Þessa sæmilega frammistaða í dag dugði til að vinna ÍR-inga en það munaði þó aðeins 9 stigum. Stelpurnar í ÍR voru að taka slæm skot í leiknum og hefðu getað unnið leikinn ef að þær hefðu ekki átt svona slakan þriðja leikhluta, enda unnu Tindastólsstúlkur aðeins með 9 stigum.

Samantektin

Þá hafa Sauðárkróksstelpurnar unnið sinn fyrsta leik á tímabilinu og gætu vel tekið fleiri nú þegar þær eru komnar á sporið. ÍR-ingar eru enn án sigurs eftir 4 leiki. Það er ekkert endilega hundrað í hættunni enn sem komið er, en hvert tap héðan af mun vega þyngra og þyngra.

Tölfræði leiks

Umfjöllun / Helgi Hrafn Ólafsson
Mynd úr leik / Tindastóll TV
Fréttir
- Auglýsing -