spot_img
HomeFréttirTindastóll hafði sigur á Þór frá Þorlákshöfn í erfiðum leik í Síkinu...

Tindastóll hafði sigur á Þór frá Þorlákshöfn í erfiðum leik í Síkinu í kvöld

 
Tindastóll, sem rústaði Stjörnunni á mánudaginn síðasta, gat komist upp að hlið KR á toppi Dominos deildarinnar með sigri á heimavelli í kvöld gegn Þór frá Þorlákshöfn.

 

 

 

Heimamenn voru gríðarlega grimmir í upphafi og áður en Þórsarar vöknuðu var staðan allt í einu orðin 19:6 og fyrsti leikhluti ekki hálfnaður.  Þá tók að rigna þristum, Majig setti tvo og Pétur Rúnar svaraði.  Þórsarar voru búnir að minnka muninn í 5 stig en þristur frá Pétri lokaði fjórðungnum og heimamenn leiddu 26:18 

 

Í öðrum leikhluta áttu gestirnir áhlaup og munurinn var ekki nema 1-2 stig þangað til um 5 mínútur lifðu til hálfleiks sem heimamenn rykktu frá með 10-1 áhlaupi, staðan 50-41 í hálfleik.  Í upphafi síðari hálfleiks bættu heimamenn í forystuna og þegar rétt rúmar 2 mínútur voru eftir af fjórðungnum komst munurinn í 20 stig 71-51 og áhorfendur í Síkinu töldu björninn vera unninn.  

 

Þórsarar voru þó ekki á þeim buxunum og Carberry, Magnús Breki og Halldór Garðar áttu síðustu 7 stig fjórðungsins á meðan heimamenn gátu ekki keypt körfu.  Helgi Margeirs setti þrist í andlitið á Þórsurunum í upphafi þriðja leikhluta og kom muninum í 14 stig eftir að Carberry hafði minnkað hann í 11.  Björgvin Hafþór bætti 2 við og Einar tók leikhlé, 16 stiga munur og innan við 8 mínútur eftir.  Þórsarar voru blokkaðir í drasl í næstu sókn en komu aftur og Hester var ekki að finna körfuna hinumegin, klikkaði þrisvar í röð og Pétur fékk dæmda á sig óíþróttamannslega villu sem leit þó sakleysislega út.  Munurinn allt í einu kominn í 10 stig og Þórsarar með blóð á tönnum.  

 

Þegar rúmar 4 mínútur voru eftir setti Helgi Margeirs risaþrist og kom muninum aftur í 10 stig, gríðarlega mikilvæg karfa.  Magnús Breki setti þrist þegar 3 mínútur voru eftir og allt var mögulegt og Þórsarar ennþá vel inni í leiknum.  En, því miður fyrir þá, hættu þeir bara alvega að hitta eftir þetta þó þeir hafi svo sannarlega fengið færin til þess, Magic, Óli og Halldór Garðar klikkuðu allir illilega á úrvals færum og þegar Helgi Rafn setti auðveld 2 stig var ljóst að Þórsarar voru ekki að fara að ná þessu.  Óli klikkaði á 2 vítum og leikurinn rann út undir söng heimamanna í stúkunni.

 

Pétur Rúnar var langbestur heimamanna í kvöld, skilaði 19 stigum og 7 stoðsendingum auk þess að rífa niður 8 fráköst.  Sóknarleikurinn hikstaði töluvert þegar hann var utan vallar.  Allir byrjunarliðsmennirnir settu yfir 10 stig, Hester þó einungis með 12 en hann átti erfiðan dag en Þórsararnir fóru alltaf 2 á hann að lágmarki í vörninni.

 

Hjá gestunum var Tobin Carberry stigahæstur að venju með 24 stig en hefur sjálfsagt oft átt náðugri daga, heimamenn voru að taka vel á honum, sérstaklega Viðar.

 

Kaflaskiptur leikur hjá Tindastól og þeir mega þakka fyrir að Þórsarar voru of þreyttir til að setja skotin í lokin.  En sigur er sigur eins og Martin þjálfari sagði að leik loknum.

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Viðtal: Pétur Rúnar eftir leik

Viðtal: Israel Martin eftir leik

 

Umfjöllun, myndir, viðtöl / Hjalti Árna

 

 

Fréttir
- Auglýsing -