spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaTindastóll hafði betur í tveimur leikjum gegn Hamri

Tindastóll hafði betur í tveimur leikjum gegn Hamri

Fyrri leikurinn fór fram á laugardag og fór rólega af stað og var jafn framan af en þegar rétt innan við 3 mínútur voru eftir af 1. leikhluta náðu heimastelpur 8-1 spretti og náðu með því 6 stiga forystu. Þær bættu svo aðeins við í öðrum leikhluta en Jenný lagaði stöðuna fyrir hálfleik með góðum þristi, staðan 39-28. Munurinn hélst þetta 7-10 stig út 3ja leikhluta en þegar rúmar 4 mínútur lifðu leiks setti Kristín Halla góðan þrist og náði 16 stiga forystu fyrir Tindastól. Þar með var þetta komið hjá heimastúlkum þó Hamar hafi náð upp ágætis baráttu í lokin og minnkað muninn þá virtist sigurinn aldrei í hættu.

Tess var stigahæst heimakvenna með 22 stig en Marín Lind kom rétt á eftir með 16. Telma Ösp bætti við 9 stigum og eins Karen Lind, sem bætti að auki við 7 fráköstum. Liðsheildin hjá Tindastól var góð og dýptin á bekknum vel nýtt hjá þjálfaranum. Hjá Hamar var Jenný Harðardóttir stigahæst með 22 stig en skammt á eftir kom Álfhildur Þorsteinsdóttir með 17 stig og 18 fráköst, tröllatvenna það hjá Álfhildi.

Leikurinn á sunnudeginum fór rólega af stað og liðnar voru 2 mínútur þar til fyrstu stigin komu á töfluna. Þau komu frá gestunum sem bættu svo í og komust í 0-5 áður en heimastúlkur vöknuðu og var það Telma Ösp sem jafnaði leikinn í 5-5 upp á sitt einsdæmi á næstu mínútu. Jafnt var nánast út leikhlutann en Tindastóll náði að ljúka honum með forystu 21-18. Munurinn jókst svo jafnt og þétt fram að hálfleik en Dagrún Inga náði að laga stöðuna fyrir hálfleik með þristi, 41-29 fyrir Tindastól í hálfleik. Í þriðja leikhluta fór að bera á þreytu hjá gestunum sem hafa ekki eins mikla breidd í hópnum og Tindastóll. Heimastúlkur gengu á lagið og náðu 17 stiga forystu, 60-43 að loknum 3ja leikhluta. Hamar gekk ekkert að minnka þann mun og svo fór að Tindastóll fór með öruggan 20 stiga sigur af hólmi, lokatölur 78-58.

Tess átti aftur góðan leik fyrir Tindastól með 25 stig og 9 fráköst. Helst bar til tíðinda að hún klikkaði á víti sem hefur ekki gerst áður á tímabilinu. Telma Ösp og Hrefna bættu við 13 stigum hvor og alls fékk Tindastóll 24 stig af bekknum í leiknum, sem er frábært. Hamarsstúlkur virkuðu þreyttar eins og áður segir en þeirra stigahæst var Jenný með 20 stig og hún reif niður 11 fráköst að auki.

Tölfræði leiks 26.10

Tölfræði leiks 27.10

Myndasafn

Umfjöllun, myndir, viðtöl / Hjalti Árna

Fréttir
- Auglýsing -