spot_img
HomeFréttirTindastóll enn taplaus í úrslitakeppninni

Tindastóll enn taplaus í úrslitakeppninni

Haukar geta ekki skýlt sig bakvið fjögurra tíma ferðalag fyrir þennan leik sem þeir léku í kvöld. Haukar mættu einfaldlega ekki til leiks í Schenker-höllina í kvöld þegar Tindastóll kom í bæinn – eftir fjögurra tíma rútuferð nota bene – og tóku góða 2-0 forystu í einvígi liðanna í undanúrslitum Domino's deildar karla.

 

Haukum tókst ekki að skora körfu utan af velli á fyrstu 4 mínútum leiksins. 8 skottilraunir fóru forgörðum hjá þeim á þessum tíma, þar af 4 sniðskot sem þeir annað hvort brenndu af eða voru varin. Á meðan náðu Tindastóll 0-10 spretti.

 

10 stiga munurinn hélst lengst af 1. hluta en Haukar náðu að minnka hann niður í 8 áður en hann flautaði út.

 

Haukar klóruðu í bakkann í upphafi 2. hluta en þá hófst enn ein þurrkatíðin hjá þeim sem varði megnið af honum. 6 mínútur liðu án þess að Haukar skoruðu körfu utan af velli.

 

Tindastóll setti þá í fluggírinn, stakk af og viðhélt 20 stiga forystu allt þar til um miðbik 4. hluta þegar varamönnum var skipt inn á völlinn.

 

Varnarleikur Tindastóls var vissulega frábær líkt og hann hefur verið í allan vetur, en þeir voru ekki að spila mikið skilvirkari sóknarleik en Haukar. 

 

Akkilesarhæll Hauka í þessari úrslitakeppni hefur verið vítaskotin þeirra. Tindastóll hefur fylgt fordæmi Keflavíkur og brotið á Haukum í nánast hvert skipti sem leikmaður úr þeirra röðum fer nálægt teignum.  

 

Haukar skutu 19/34 á vítalínunni og voru Alex Francis og Emil Barja með samanlagt 8/20. Trú Hauka á vítaskot sín er orðin svo lítil að það er farið að hafa áhrif á frammistöðu þeirra í teignum. Þá snúa þeir sér að skotunum fyrir utan þriggja stiga línuna og þegar þau eru ekki að detta er leikurinn tapaður.

 

Frákastabaráttan var eign Tindastóls með 44 á móti 38 hjá Haukum og ekki hjálpuðu 17 tapaðir boltar heimamönnum.

 

Haukar eru nú komnir með bakið upp við vegginn enn eina ferðina, 0-2 undir á móti mun sterkara liði en Keflavík er. Ef ekki er kominn tími til að vakna og þefa af kaffinu núna, þá verða Haukar einfaldlega komnir í sumarfrí á heimleiðinni frá Króknum á mánudaginn kemur.

 

Tindastóll hefur ekki tapað leik í úrslitakeppninni þetta árið og er allt útlit fyrir að fyrsti tapleikurinn komi ekki fyrr en í fyrsta lagi í úrslitunum – eða hvað?  Það er undir Haukum komið.

 

Myndasafn: Axel Finnur

Myndasafn: Bára Dröfn

 

Tölfræði leiks.

Fréttir
- Auglýsing -