Tindastóll hefur samið við Pétur Rúnar Birgisson um að leika áfram með liðinu á næsta tímabili. Hávær orðrómur var uppi um að Pétur væri á leið frá félaginu en slegið hefur verið á þær sögusagnir. Þetta kemur fram á Feykir.is í dag.
Pétur endaði með 16,5 stig, 6,2 stoðsendingar og 5,5 fráköst að meðaltali í leik fyrir Tindastól á nýliðnu tímabili. Liðið féll úr leik í átta liða úrslitum gegn Keflavík en ljóst er að liðið ætlar sér stærri hluti á komandi tímabili þar sem félagið hefur nú þegar samið við þá Sigtrygg Arnar Björnsson frá Skallagrím auk þess sem Axel Kárason er á heimleið frá Danmörku.
„Ég held að þetta verði bara flottur vetur, erum sami kjarninn og bætum við okkur tveimur topp leikmönnum, þannig líst bara mjög vel á þetta, Það voru nokkur lið sem höfðu samband en ég ætla að bíða með að fara suður í skóla og þá kom í rauninni bara Tindastóll til greina.“ sagði Pétur við Feykir.is um málið.