spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaTindastóll á toppinn eftir framlengdan sigur á Keflavík

Tindastóll á toppinn eftir framlengdan sigur á Keflavík

Tindastóll náði að landa sigri í fyrstu deild kvk gegn Keflavík b í hörkuleik í Síkinu í dag. Leikurinn fór í framlengingu og hefði getað endað á hvorn veginn sem var en Stólastúlkur náðu að kreista fram sigur í lokin.

Tindastóll byrjaði leikinn ágætlega og komust í 5-0 en Keflavík voru fljótar að koma til baka og komust í 7-9 um miðjan fyrsta leikhluta með þristi frá Önnu Ingunni sem átti skínandi leik fyrir gestina. Stólastúlkur bitu í skjaldarrendur og komust aftur yfir og leiddu 21-15 að loknum fyrsta leikhluta þar sem hrafna og Eva Rún voru að ná vel saman. Keflavík kom með áhlaup í upphafi annars leikhluta og minnkuðu muninn í 1 stig en 7 stig í röð frá Tess komu muninum í 9 stig 29-20. Keflavík sótti að Stólum aftur en þristur frá Tess kom muninum í 7 stig fyrir hálfleik en Sara Lind náði einu til baka með víti á lokasekúndunum, 40-34 í hálfleik.

Minna var skorað í seinni hluta leiksins en baráttan var því meiri. Keflavík b vann þriðja leikhlutann 11-15 og náðu því að saxa á forskot Stóla, staðan 51-49 fyrir lokaátökin. Gestirnir náðu fljótlega að jafna og komast yfir en liðin skiptust á að hafa forystuna það sem eftir lifði leiks. Hrefna Ottosdóttir setti góðan þrist þegar tæpar 2 mínútur voru eftir og kom liði sínu 2 stigum yfir og víti frá Kristínu Höllu kom stöðunni í 63-60 þegar 28 sekúndur voru eftir. Keflavík tók leikhlé og settu upp kerfi sem gekk upp og Sara Lind setti þrist og jafnaði leikinn þegar 13 sekúndur voru eftir. Tindastóll náði ekki að nýta þann tíma og leikurinn framlengdur.

Framlengingin byrjaði með þristi frá Önnu Ingunni en Tess svaraði með góðri körfu. Keflavík b virkuðu sterkari en sterkur varnarleikur Tindastóls og sóknarfráköst lönduðu sigri heimastúlkna að lokum 73-70.

Hjá Tindastól átti Tess Williams enn einn stjörnuleikinn og endaði með 26 stig og 14 fráköst. Hún vinnur hinsvegar ekki svona leiki ein og liðsfélagar hennar skiluðu því sem á vantaði með sóma, Kristín Halla (8 stig, 10 fráköst og 3 varin skot), Hrefna Ottós (14 stig, 7 fráköst) og Karen Lind áttu allar góðan leik. Jafnari stigaskorun var hjá Keflavík b en Anna Ingunn átti fínan leik eins og áður sagði, með 16 stig og 11 fráköst. Það ber körfuboltabænum Keflavík fagurt vitni að geta stillt upp 2 góðum liðum í deildakeppninni á meðan jafnvel stærri bæjarfélög ná ekki saman liði.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun, myndir, viðtöl / Hjalti Árna

Fréttir
- Auglýsing -