spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaTindastóll 40 mínútum frá Íslandsmeistaratitlinum eftir sigur í Síkinu

Tindastóll 40 mínútum frá Íslandsmeistaratitlinum eftir sigur í Síkinu

Tindastóll tók á móti Stjörnunni í þriðja leik liðanna í úrslitaeinvígi Bónus deildar karla í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Staðan í einvíginu var jöfn eftir stórsigur Stjörnumanna í Umhyggjuhöllinni 1-1

Stólar byrjuðu leikinn gríðarsterkt, Arnar Björnsson skoppaði um völlinn og orkan sem Síkið gaf leikmönnum var áþreifanleg. Stólar keyrðu mikið á körfuna, sem hafði vantað í síðasta leik og skotin að utan voru líka að detta. Þegar rúmar 2 mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta leiddu Stólar 25-14 en þá sprengdu Stjörnumenn leikinn með 3 þristum í röð og minnkuðu muninn í 1 stig. Basile lokaði leikhlutanum með góðri körfu en Stólar virkuðu slegnir.

Í öðrum leikhluta skiptust liðin á körfum til að byrja með en Stólar sigu þó aðeins framúr með 5 vítum Geks og svakalegri troðslu frá Sadio yfir Rombley. Stjarnan kom þó alltaf tilbaka og staðan var 63-58 í hálfleik sem er ótrúlega hátt skor í svona leik. Hilmar Smári kominn með 20 stig en á móti kom að Stólar náðu aðeins að hægja á Ægi.

Seinni hálfleikur var svipaður barningur en það hægði á stigaskorun. Stólar voru að gera betur í fráköstum en í síðastu leikjum og settu alls 11 stig eftir sóknarfráköst. Sadio var ferskur ennþá og kom Stólum í 5 stiga forystu þegar 2:20 voru eftir af þriðja leikhluta en Stjarnan kom til baka og komust yfir 83-84 með þrist frá Hlyn en Sadio jafnaði með víti, 84-84 fyrir lokaátökin.

Stjarnan byrjaði lokaleikhlutann sterkt og komust yfir 84-88 og 86-90 en þá byrjuðu Stólar að snúa taflinu við og það hófst með troðslu og þristi frá Drungilas sem hafði átt erfitt í leiknum. Stólar fóru svo á góðan sprett og náðu 11-2 spretti sem gerði út um leikinn. Staðan orðin 2-1 og Stólar geta klárað einvígið í Garðabænum.

Liðsheildin var frábær hjá Stólum í kvöld, allir byrjunarliðsmenn náðu í tveggja stafa tölu í stigaskorun og Geks bætti við 13 stigum af bekknum. Það gekk mun betur að halda Ægi niðri en hann endaði með 15 stig. Basile átti frábæran leik með 24 stig, 6 fráköst og 10 stoðsendingar. Hjá Stjörnumönnum var Hilmar Smári stigahæstur með 22 stig en þó aðeins með 13 í framlag.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Umfjöllun / Hjalti Árna

Viðtöl / Sigurður Ingi og Sæbjörn Steinke

Fréttir
- Auglýsing -